141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Róbert Marshall) (U):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tvö frumvörp, um frumvarp til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og frumvarp til laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála.

Nefndin hefur fjallað um þessi mál, þau eru endurflutt frá 139. og 140. löggjafarþingi. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði til á fyrri stigum að málin yrðu afgreidd og nefndarálit frá fyrri þingum fylgja þessu nefndaráliti sem fylgiskjöl. Þau eru töluvert efnismikil og ég ætla ekki að fara yfir þau í heild sinni, enda hefur þetta mál verið töluvert rætt í þinginu.

Með þessum frumvörpum er lagt til að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslan, stofnun sem sinni stjórnsýslu og eftirliti á sviði samgöngumála, og hins vegar Vegagerðin, stofnun sem sinni framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með eignarhald og sinna rekstri þeirra. Ætlunin er að stofnanirnar verði reistar á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar. Er Farsýslunni ætlað að annast stjórnsýslu og eftirlit með flugmálum, hafnamálum og málum sem varða sjóvarnir, siglingamálum, umferðarmálum og vegamálum. Vegagerðinni er aftur á móti ætlað að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins og við þá framkvæmd stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum og stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið. Í frumvörpunum er skipulag stofnananna skilgreint og meðal annars kveðið á um skyldu þeirra til að hafa samráð í ýmsum málum við aðila sem tengjast verkefnum þeirra. Verkefni þeirra eru ítarlega tíunduð og kemur þar helst fram sá grundvallarmunur sem er á stofnununum. Í tilvikum beggja stofnana eru gjaldtökuheimildir þeirra útfærðar og fjallað um fjármögnun og tekjur. Þá er í tilviki Farsýslunnar kveðið sérstaklega á um heimildir sem einkennandi má telja fyrir stjórnsýslu- og eftirlitsstofnanir.

Markmið endurskipulagningar samgöngustofnana eru skýrlega sett fram í almennum athugasemdum frumvarpanna. Þau eru að auka faglegan styrk, skýra verkaskiptingu, bæta þjónustu og árangur, efla, einfalda og auka gagnsæi stjórnsýslunnar, tryggja markvissara samráð við hagsmunaaðila, efla samgönguáætlun og tryggja markvissa framkvæmd hennar, auka hagkvæmni og bæta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til samgöngumála og samþætta þróun og rannsóknir á sviði samgöngumála. Þá eru tiltekin þau rök sem liggja til grundvallar endurskipulagningu samgöngumála. Þau eru í fyrsta lagi ný framtíðarsýn um að skipulag samgöngumála lúti aðskilnaði á milli stjórnsýslu og eftirlits með samgöngukerfinu, rekstri samgöngukerfisins og starfsemi sem nýtir samgöngukerfið, í öðru lagi ríkar kröfur sem gerðar eru um öfluga, gagnsæja, óháða og sterka en einfalda stjórnsýslu sem ekki eigi við um framkvæmdir og rekstur samgöngumannvirkja. Í þriðja og síðasta lagi er stefna ríkisstjórnarinnar um að gera þurfi umbætur og breytingar á stjórnkerfi landsins í þeim tilgangi að nýta fjármuni eins vel og unnt er á sama tíma og lögð sé áhersla á að stjórnsýsla og þjónusta hins opinbera við almenning og atvinnulíf verði eins góð og kostur er.

Virðulegur forseti. Þetta mál hefur verið töluvert lengi til umfjöllunar, ekki aðeins á þinginu heldur líka innan stjórnsýslunnar. Í nefndarálitinu sem ég fjalla hér um er þess meðal annars getið að endurskipulagning samgöngustofnana eigi rót sína að rekja til stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar frá júní 2008, en þar voru settar fram tillögur um breytt stofnanakerfi samgöngumála og meðal annars lagt til að settar yrðu á fót stjórnsýslustofnun og framkvæmdastofnun ásamt ríkisfyrirtæki á sviði rekstrar og viðhalds. Að auki er vísað til þess að samgönguráðherra hafi í janúar 2009 skipað nefnd um framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Það er líka fjallað töluvert um undirbúning og fyrirkomulag vinnu samgönguráðuneytisins vegna þessara frumvarpa og það kemur fram að stýrihópur skipaður fulltrúum ráðuneytisins, Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar hafi unnið að greiningu og útfærslu einstakra þátta verkefnisins. Í þeim hópi sátu meðal annars forstöðumenn allra þeirra stofnana sem málið varðar ásamt fulltrúum starfsmanna. Stýrihópurinn hélt samtals 25 fundi um málið auk þess sem fjölmargir undirhópar voru skipaðir til að vinna að einstökum málefnum, svo sem starfsmannamálum, fjármálum, húsnæðismálum, upplýsingatækni, verkefnum, verkferlum o.fl. Starfsmönnum allra stofnana var einnig gert mögulegt að fylgjast með gangi mála á sérstöku heimasvæði sem útbúið var í þeim tilgangi þar sem meðal annars mátti finna fundargerðir, skýrslur undirhópa og fleira sem málið varðar. Fjölmargar athugasemdir og tillögur bárust þannig frá starfsmönnum sem margar hverjar höfðu áhrif á framgang málsins.

Að mati meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar virðast möguleikar til sameiningar hafa verið ræddir á breiðum grundvelli í stýrihópnum og virðist gert ráð fyrir því að stýrihópurinn vinni áfram að undirbúningi sameiningar. Þá virðist ætlunin að samrunaáætlun liggi fyrir við gildistöku frumvarpanna sem lög frá Alþingi. Það hefur sem sagt töluverð vinna verið lögð í undirbúning þessa máls.

Þær breytingartillögur sem lagðar voru til í undanfarinni umfjöllun um þetta mál hafa verið teknar upp við endurflutning frumvarpanna. Þær lutu að uppfærslu fjárhæða í 2. mgr. 12. gr. frumvarps til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, um gjaldtöku fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteina og hljóðsstigs- og mengunarvottorða. Einnig voru lagðar til breytingar á bráðabirgðaákvæðum í frumvörpunum. Meiri hlutinn ítrekar þau sjónarmið er fram koma í álitum meiri hluta nefndarinnar á fyrri þingum og bendir sérstaklega á að þar kemur fram mikilvægi þess að stjórnsýslan sé í stöðugri þróun og endurskoðun með það að markmiði að ná fram aukinni skilvirkni í einstökum málaflokkum. Einnig áréttar meiri hlutinn það sjónarmið að starfsemin úti á landi verði varin við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Meiri hlutinn ítrekar einnig mikilvægi þess að óvissu sé nú eytt hvað varðar frekari breytingar skipulags á þessu sviði og að starfsmenn viðkomandi stofnana og stjórnsýslan öll fái niðurstöðu í málið.

Undir þetta nefndarálit rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Mörður Árnason og Árni Johnsen.