141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Róbert Marshall) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að mínu mati er sjálfsagt mál að taka málið inn á milli 2. og 3. umr., það á alltaf að gera þegar óskað er eftir því og sjálfsagt mál að fara yfir þá þætti sem hv. þingmaður spyr um hvað varðar gildistökuna.

Ég hef sjálfur komið að þessu máli í alllangan tíma, var meðal annars aðstoðarmaður ráðherra þegar hluti þess fór af stað í samgönguráðuneytinu og hef mikla sannfæringu fyrir því að þetta sé gæfuspor fyrir þennan málaflokk, ekki eingöngu vegna þess að það næst rekstrarleg hagræðing þegar til lengri tíma er litið heldur held ég einfaldlega að fagleg þekking verði miklu meiri innan þessara stofnana en hún er í dag. Í grundvallaratriðum er um að ræða sömu verkþættina, hvort sem menn eru að fjalla um framkvæmdir á sviði hafnamála, vegagerðar eða flugvalla. Það sem við eigum fyrst og fremst að horfa til er hvort við fáum vandaðri og betri vinnu þegar upp er staðið. Ég held að það sé engin spurning að sameining stofnananna muni skila því og þess vegna hef ég mikla sannfæringu fyrir þessu máli.