141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að auðvitað er markmið hæstv. ráðherra og þeirra hv. þingmanna sem styðja þetta mál að reyna að ná fram hagræðingu í ríkisrekstri. Ég er talsmaður þess að ná fram hagræðingu í ríkisrekstri en ég vil hins vegar gera þær kröfur að þegar við ræðum þetta mál og önnur að væntingarnar séu ekki úr hófi.

Ég vil líka taka fram að mér fannst til mikillar fyrirmyndar þegar hæstv. innanríkisráðherra lagði fram breytingar á embættum sýslumanna. Mér fannst afskaplega skynsamlega og vel að því staðið. Ég hefði talið mjög æskilegt og gott ef farið hefði verið eins að við þetta mál, ég held að það hefði hjálpað málinu mikið þegar það var lagt fram upprunalega ef menn hefðu farið sömu leið og hæstv. dómsmálaráðherra lagði til um breytingar á sýslumannsembættunum. Það var reyndar ekki núverandi hæstv. innanríkisráðherra sem lagði það mál fyrst fram, það var annar sem gerði það.

Ég held að mjög mikilvægt sé að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki gildistöku laganna til umfjöllunar. Ég nefni að Alþingi var nú bara fyrr í dag að breyta gildistöku laga sem voru sett á þinginu vegna þess að væntingar höfðu verið óraunhæfar um að þau lög gætu gengið skynsamlega fram. Auðvitað vilja allir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn að þær breytingar sem gerðar eru geti gengið fram á eðlilegan máta.

Ég vil líka minna á, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Róbert Marshall sem er talsmaður málsins, að nú er október langt liðinn. Hugsanlega verður þetta mál samþykkt í nóvember og þá er kannski ekki mikill fyrirvari. Nú þekki ég það ekki sjálfur hvort undirbúningurinn í stofnunum sé þannig að þar sé allt komið á fulla ferð, ég þekki það ekki. Ég held þó að mun skynsamlegra og ásættanlegra væri fyrir alla að miða gildistöku laganna við það að þeim fjórum stofnunum sem hér um ræðir væri gefinn eðlilegur tími til að bregðast við.

Einnig er ágætt að minna á að það getur líka sparað peninga að vera ekki með of miklar og óraunhæfar væntingar um hvernig skuli bregðast við. Ég vil koma því á framfæri og áminningin er auðvitað sú að við vorum einmitt að breyta gildistöku laga fyrr í dag.

Þá langar mig að snúa mér efnislega að þessu máli og einstökum greinum þess. Ég ítreka að ég er talsmaður þess að spara í ríkisrekstri og hagræða eins og hægt er og hef viðrað margar skoðanir mínar á því hvernig megi gera það en kannski hefur ekki mikið verið hlustað á það. Ég verð að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með að hv. umhverfis- og samgöngunefnd skyldi ekki bregðast við athugasemdum mínum, en við 1. umr. þessa máls og í raun og veru við allar umræður á undanförnum þingum hef ég ítrekað sett miklar athugasemdir við þann sparnað sem á að nást með þessum sameiningum. Ég kalla eftir því að nefndin skoði þær athugasemdir.

Þegar ég sat í hv. samgöngunefnd eins og hún hét þá, kallaði ég eftir því sem nefndarmaður að samgönguráðuneytið legði fram útreikninga og sýndi okkur tölulegar upplýsingar og staðreyndir um það hvernig ætti að ná þessum sparnaði, sýndi okkur grunngögnin á bak við þessar hugmyndir. Mér fannst það eðlileg krafa af hálfu nefndarmanns og hv. þingmanna. Ég hef aldrei fengið að sjá þessi gögn. Það hlýtur að vekja mann til umhugsunar að enn skuli standa sami textinn í frumvarpinu nú þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum sparnaði, til dæmis 50% sparnaði í yfirstjórninni. Þessi tala og þessi texti hefur verið eins undanfarin þrjú ár. Hefur ekki verið skorið töluvert niður hjá þessum stofnunum síðan þá? Ég hefði talið það. Ef niðurstaðan er að þetta geti staðið óbreytt segir það manni bara eitt: Það hefur enginn sparnaður orðið í yfirstjórninni. Það hlýtur að vera niðurstaðan ef talan hefur ekkert breyst.

Það er mikilvægt að þetta verði skoðað betur en gert hefur verið. Þetta var ástæðan fyrir því að ég setti mig mjög upp á móti þessu máli á sínum tíma. Ég var ekki á móti sameiningu stofnana. Ég vildi fá grunngögnin á bak við tölurnar sem sýndu mér fram á að þessi sparnaður mundi nást.

Þegar við ræddum þetta mál á síðasta þingi, og ég kom inn á það í andsvari við hv. þm. Róbert Marshall, fór ég í andsvar við hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem mælti fyrir nefndarálitinu á sínum tíma en hún er formaður nefndarinnar þótt hv. þm. Róbert Marshall sé talsmaður í málinu núna. Þá tók hv. þingmaður undir athugasemdir mínar og var mér sammála um að skynsamlegt væri að vinna þetta þannig. En nú þegar maður fer yfir það sem kemur fram í fylgiskjalinu frá fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis, segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Frumvarpið var áður lagt fram á síðasta þingi og voru þá ekki fyrirliggjandi rekstraráætlanir fyrir þessar nýju stofnanir né hvernig 484 millj. kr. rekstrarframlag Vegagerðarinnar og 692,4 millj. kr. rekstrarframlag Siglingastofnunar í fjárlögum 2012 muni skiptast milli stofnananna tveggja. Slíkar áætlanir liggja ekki heldur fyrir á þessu stigi hjá innanríkisráðuneytinu.“

Þess vegna spyr ég hvort ekki sé skynsamlegra að breyta gildistökunni þegar það liggur ekki einu sinni fyrir núna, rúmum mánuði áður en lögin eiga að taka gildi, hvernig skipta eigi rekstrarframlögum viðkomandi stofnana á milli nýju stofnananna. Þetta kveikir á mörgum viðvörunarljósum hjá mér og staðfestir að það er mikilvægt að skoða þetta gaumgæfilega.

Af hverju hef ég áhyggjur af þessu? Ég minni á hvað sagan segir okkur. Í skýrslu frá Ríkisendurskoðun er það staðfest að í 85% tilfella í sameiningu stofnana mörg ár aftur í tímann hefur sú hagræðing sem átti að nást ekki gengið eftir. Og hverjar eru meginástæðurnar? Þær eru að undirbúningurinn hefur ekki verið nægur og markmiðin ekki nægilega skýr. Þess vegna kviknar núna á mörgum viðvörunarljósum í þessu máli.

Síðan segir einnig í umsögninni og mig langar að vitna orðrétt til hennar, með leyfi frú forseta:

„Samkvæmt mati innanríkisráðuneytisins er gert ráð fyrir að með samþættingu þessara verkefna í tvær nýjar stofnanir verði mögulegt að ná fram beinni hagræðingu í rekstrargjöldum sem nemi um 10%. Ekki liggur þó fyrir áætlun um það hvernig hagræðingin muni skiptast á milli Farsýslunnar og Vegagerðarinnar.“

Það liggur ekki fyrir núna hvernig hagræðingin verður á milli þessara tveggja nýju stofnana. Ég efast ekki um að markmið hæstv. ráðherra er auðvitað að ná fram þessari hagræðingu og ég tel því, virðulegi forseti, að heillavænlegast væri og best fyrir alla að fresta gildistöku laganna. Það er mín einlæga ósk.

Síðan mætti auðvitað hafa langt mál um sameiningarnar sem slíkar og ég ætla að fara aðeins yfir það. Á fyrri stigum þessa máls þegar fjallað var um það í þinginu, og ég sat til að mynda í hv. samgöngunefnd sem fjallaði um það, voru uppi hugmyndir um frekari samþættingar. Það var vitnað til ákveðinnar skýrslu þar sem var talað um frekari sameiningar en hver var niðurstaðan þegar lagt var til að þetta yrði samþykkt á árinu 2011? Þá var sagt: Við komumst ekki yfir þessa svokölluðu ráðuneytismúra. Þeir hafa einhvern veginn verið akkillesarhællinn í stjórnsýslu okkar mjög lengi. Það virðist vera mjög erfitt í framkvæmd að sameina stofnanir þvert á ráðuneyti. Sama hversu skynsamleg sameiningin er virðast málin oft stoppa þar og hafa gert í áraraðir. En hvað kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans? Það vekur auðvitað athygli að hv. þm. Róbert Marshall sem er talsmaður í þessu máli skrifar undir það. Hver er niðurstaðan þar? Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar álit meiri hlutans að ekki sé líklegt að þær hugmyndir sem þar eru viðraðar um sameiningu stofnana þvert á ráðuneyti nái fram að ganga að svo stöddu.“

Þarna er vitnað til Gíslaskýrslunnar sem svo var kölluð í nefndinni, skýrslu sem var unnin fyrir samgönguráðuneytið og skilað í júní 2009 um frekari sameiningar til að ná fram meiri rekstrarsparnaði.

Eigi að síður leggur meiri hlutinn til breytingartillögur um þetta mál. Hverjar voru þær? Þá langar mig að vitna aftur orðrétt í álit meiri hlutans sem hv. þm. Róbert Marshall skrifaði undir ásamt fleirum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Engu síður áréttar meiri hlutinn að hann telur að ekki megi láta staðar numið enda gæti slíkt í raun og veru dregið verulega úr þeirri hagræðingu sem mögulegt er að ná með frekari sameiningum ríkisstofnana. Því leggur meiri hlutinn til að við frumvörpin bætist ákvæði til bráðabirgða sem geri stjórnvöldum skylt að halda áfram á þeirri braut sem þau hafa markað með framlagningu frumvarpanna. Í þeim efnum lítur nefndin meðal annars til þess að Alþingi hefur til meðferðar frumvarp til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands. Gerir meiri hlutinn ráð fyrir að ákvæði þessi felli þá skyldu á innanríkisráðherra að hann hafi frumkvæði að því að leggja frekari drög að sameiningu ríkisstofnana. Þá leggur meiri hlutinn til að leið ráðherrans verði vörðuð með þeim tillögum sem koma fram í niðurstöðum, tillögum og ábendingum nefndar samgönguráðherra um framtíðarskipan stofnana samgöngumála eins og þær birtust í skýrslu hennar frá júní 2009, þá einkum kafla 5.5.“

Þetta eru mjög skýr skilaboð og ekki fer á milli mála um hvað er rætt. Ráðuneytismúrarnir á þessum tíma hindruðu að þeirri skynsemi væri náð sem nefndin taldi felast í frekari sameiningum. En meiri hluti nefndarinnar á þeim tíma, sem ég átti ekki aðild að, bendir á að við breytingar á Stjórnarráðinu muni þessir múrar falla að hluta til. Þess vegna leggur hann til að leiðin fyrir hæstv. ráðherra verði vörðuð til að halda áfram og ná fram þeirri sameiningu stofnana sem vitnað er til í skýrslunni frá júní 2009.

Ekki bara það. Til að fylgja þessu eftir lagði meiri hluti samgöngunefndar til breytingartillögu um hvernig ætti að fara að, og ég var sammála henni. Hún hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Eigi síðar en 1. febrúar 2012 skal innanríkisráðherra leggja fyrir ríkisstjórn og Alþingi áætlun um frekari sameiningu ríkisstofnana og drög að samkomulagi við viðeigandi ráðherra ríkisstjórnarinnar þess efnis að áætlun ráðherrans megi fram ganga. Skal framangreind áætlun miða við að sameiningu ríkisstofnana verði að fullu lokið fyrir lok árs 2013. Hvað sameiningarkosti varðar skal í áætlun ráðherra einkum litið til kafla 5.5 í skýrslu nefndar samgönguráðherra um framtíðarskipan stofnana samgöngumála – greining og valkostir.“

Ég held að ég geti fullyrt, virðulegi forseti, að öll hv. samgöngunefnd á sínum tíma taldi skynsamlegra að fara aðra leið en nú er lagt til. Af hverju segi ég það? Það kemur mjög skýrt fram í meirihlutaáliti nefndarinnar. Annmarkarnir voru eins og ég hef áður sagt ráðuneytismúrarnir. Boðaðar voru breytingar á Stjórnarráðinu. Þá áttu þeir að falla og þess vegna skyldi haldið áfram á sömu braut.

Í umfjöllun nefndarinnar um málið held ég að mjög skýrt hafi komið fram hjá þeim sem komu fyrir nefndina að skynsamlegra væri að fara aðra leið. Þess vegna er lögð til breytingartillaga við ákvæði til bráðabirgða um að hæstv. ráðherra eigi að flytja þinginu skýrslu um áætlun sína og, eins og segir í nefndarálitinu, að leiðin skuli vera vörðuð fyrir hæstv. ráðherra. Síðan er gerð breytingartillaga um að eigi síðar en 1. febrúar 2012 skuli innanríkisráðherra leggja fyrir ríkisstjórn áætlun sína.

Virðulegi forseti. Nú er kominn 18. október 2012. Þess vegna er ég ekki ánægður með það hvernig að þessu hefur verið staðið og nýtt tækifæri til að fara í enn frekari sameiningar. Hvað er verið að ræða í kafla 5.5 í þessari skýrslu? Ég hef ekki tíma til að útskýra það í löngu máli en þar er talað um aðrar sameiningar sem gætu skilað meiri hagræðingu, aðrar stofnanir í því sambandi. Ég gæti nefnt þrjár í fljótu bragði.

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst velvirðingar á því að klukkan stendur á sér og biður hv. þingmann að vera ekki að líta á hana, við reynum að haga tímavörslu með öðrum hætti.)

Virðulegi forseti. Ég skal hætta að horfa á klukkuna. — Það voru fyrst og fremst þrjár stofnanir sem menn töldu að mætti skoða til frekari sameiningar. Það voru Fiskistofa, Landhelgisgæslan og hugsanlega skipafloti Hafrannsóknastofnunar, mögulega einhverjar fleiri. Þannig mætti ná fram enn frekari hagræðingu. Síðan eru auðvitað aðrar útfærslur í skýrslunni sem ég ætla ekki að fara yfir hér. Þess vegna hef ég reyndar verið dálítið ósáttur við ferli málsins, að við skyldum ekki nýta þau tækifæri sem þarna gáfust og að ekki hafi farið í vinnu við að skoða þau. Það hefði til dæmis verið mjög áhugavert að skipa starfshóp til að fara yfir þessar hugmyndir.

Ég teldi skynsamlegra — ég veit að það er það skynsamt fólk margt hvert í hv. umhverfis- og samgöngunefnd — að fara yfir þær ábendingar sem komu fram. Ég teldi líka mjög skynsamlegt að fresta gildistöku laganna um eitt ár og hæstv. ráðherra mundi kannski í framhaldinu skipa starfshóp sem færi yfir þetta ferli á meðan. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um þá niðurstöðu sem gæti komið út úr því, ég get ekki gert það, en ég tel mikilvægt að þetta verði skoðað.

Svo er dálítið merkilegt sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans núna um óvissuna sem snýr að starfsfólkinu. Ég get auðvitað tekið undir það. Maður er hvað mest hugsi yfir því. Það er auðvitað mjög óþægilegt fyrir starfsfólkið að vera alltaf í því starfsumhverfi að vita ekki hvort stofnunin verður sameinuð eða ekki, það er óþolandi. Sama hvaða skoðun við höfum á málinu þá verðum við auðvitað fyrst og fremst að bera velferð alls starfsfólksins í þessum stofnunum fyrir brjósti.

Í meirihlutaálitinu kemur líka nokkuð fram sem er þveröfugt við það sem ég var að lýsa áðan um það ferli eða vegferð sem var vörðuð um frekari sameiningar fyrir hæstv. ráðherra. Meiri hlutinn segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Einnig áréttar meiri hlutinn það sjónarmið að starfsemin úti á landi verði varin við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Meiri hlutinn ítrekar einnig mikilvægi þess að óvissu sé nú eytt hvað varðar frekari breytingar skipulags á þessu sviði og að starfsmenn viðkomandi stofnana og stjórnsýslan öll fái niðurstöðu í málið.“

Við þurfum ekki að deila um þetta. En mig langar þá að velta upp þeirri spurningu hvort ekki væri skynsamlegra að fresta gildistökunni um eitt ár, skipa starfshóp sem færi yfir þetta og rýndi þessa skýrslu. Síðan mundi hópurinn skila af sér fyrir ákveðinn tíma, við getum sagt bara fyrir 1. júní eða 1. júlí eða um mitt ár til dæmis, og þá lægi fyrir niðurstaða. Þá væri allri óvissu eytt gagnvart því góða starfsfólki sem vinnur í þessum stofnunum. Það kemur mjög skýr vilji og skýrar ábendingar fram í skýrslunni og sá vilji hefur líka komið fram í þinginu að fara í frekari sameiningar. Ef þetta yrði gert væri kannski hægt að klára málið og eyða óvissunni eins mikið og hægt er. Það teldi ég mjög skynsamlegt.

Mér finnst mikilvægt að menn hugsi þetta vandlega, að við látum þetta ekki vera bitbein á milli okkar þótt maður sé ekki sáttur við ferlið eins og það hefur verið. Ég hef sagt það, ég er ekki sáttur við það hvernig meiri hlutinn afgreiðir þetta mál án þess að skoða þær ábendingar sem ég hafði við 1. umr., sú umræða var nú ekki löng. Ég benti á alla þá ágalla sem ég taldi vera á málinu en samt virðist ekkert hafa verið gert til að festa betur fingur á það. Að mínu mati eru þarna gerðar óraunhæfar kröfur um hagræðingu við sameiningu þessara stofnana.

Ég vil reyna að horfa fram á veginn og hef þá trú að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari ítarlega yfir þetta mál milli 2. og 3. umr. Ég held að heillavænlegast væri, sérstaklega fyrir starfsfólkið, að fresta gildistöku laganna um eitt ár, nota tímann til að skoða frekar þessa tillögu, hvort menn vildu fara þá leið. Þá væri í raun og veru hægt að segja 1. janúar 2014 að búið væri að leggja í þessu vinnu af hálfu þingsins og framkvæmdarvaldsins og að minnsta kosti mundi þetta ekki hanga lengur yfir því ágæta starfsfólki sem hefur verið í óvissu þann tíma sem málið hefur verið til umfjöllunar. Það tel ég mikilvægast í því verkefni sem fram undan er. Þá gætum við sagt að við hefðum skoðað möguleikann, hann hangir yfir, en þetta er hins vegar niðurstaðan og svona ætlum við að halda áfram með málið. Ég held að það væri mjög skynsamlegt.