141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem mér fannst mjög áhugaverð. Hv. þingmaður kom með ábendingu í ræðu sinni sem ég hafði ekki áttað mig á í umfjöllun um þetta mál, en hún snýr akkúrat að því að skipta frekar stofnunum ríkisins í þá veru sem hér er gert ráð fyrir, annars vegar stjórnsýslustofnanir og hins vegar framkvæmdastofnanir. Þetta var mjög áhugaverð nálgun á málið hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni.

Það kom líka fram í meðförum málsins að ákveðnir árekstrar gætu orðið og tvíverknaður við það sem hugmyndin snýst um, en væntanlega er hægt að laga það og sníða þá agnúa af ef þeir reynast vera fyrir hendi.

Mig langar í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði um að færa verkefnin nær þeim stað þar sem þau eru unnin að benda á eitt sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hækkað um 150 eða 160 milljónir tæpar á tveimur árum, þ.e. frá reikningi 2011 yfir í frumvarp 2013, á meðan náttúrustofurnar eru búnar að hækka sáralítið eða ekki neitt og búið að bæta einni við. Eitt af þeim verkefnum sem Náttúrufræðistofnun er einmitt að fá 150 millj. kr. aukafjárveitingu fyrir núna eða tímabundna fjárveitingu er að kortleggja það sem snýr að fuglalífi og vistkerfinu úti á landi. Mér fannst hv. þingmaður benda á þessa nálgun, þ.e. að það þyrfti að færa fjármögnunina nær staðnum þar sem verkin eru unnin. Ég fagna þessari nálgun hv. þingmanns.