141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru að verða athyglisverðar pælingar sem við eigum hér, orðaskipti okkar hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það er kannski spurning að færa þessi verkefni frekar út í aðrar stofnanir. Ég náði ekki að fara yfir það hér áðan vegna tímaskorts en kannski er reynslan í gegnum tíðina akkúrat ástæðan fyrir því að meiri hlutinn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd ítrekar þetta. Það getur vel verið að þetta sé ákveðin stefnubreyting. Það væri kannski æskilegt fyrir mig og hv. þingmann að túlka það með jákvæðum hætti.

Það sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson bendir á er það sem hefur alltaf blasað við okkur. Ég nefndi hér áðan að á sama tíma og Náttúrufræðistofnun er búin að fara úr 460 milljónum samkvæmt ríkisreikningi 2011 í 597 milljónir í frumvarpinu 2013 standa náttúrustofurnar nánast í stað. Eina hækkunin sem þar er inni er tiltölulega lág og er út af því að búið er að stofna nýja stofu á Hornafirði.

Þá ætla ég að koma inn á eitt sem ég náði ekki að gera áðan. Það er verið að auka fjárveitingu til Náttúrufræðistofnunar, sem er á suðvesturhorninu, á höfuðborgarsvæðinu, um 150 millj. kr. og það á að fjölga starfsmönnum. Hvert eru verkefnin að fara? Hvert er verkefni starfsmannanna? Það á að kortleggja vistkerfi og fuglalíf á Íslandi með það fyrir augum að auðkenna þau svæði sem þarfnast verndunar. Hvar mundi maður halda fljótt á litið að ætti að fara yfir þessa hluti? Væri það ekki akkúrat hjá náttúrustofunum á landsbyggðinni? Væri það ekki skynsamlegri nýting í staðinn fyrir að láta embættismenn eða starfsmenn úr Reykjavík keyra út á landsbyggðina til að kanna þetta? Þetta er nokkuð sem við þurfum að ræða enn ítarlegar.