141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki tími til að fara í umræður um hugmyndir hv. þingmanns í tveggja mínútna andsvörum eða svörum, en ég tek bara undir það sem þar kemur fram og snýr að mikilvægri starfsemi allra þessara stofnana.

Það kom fram og er markmiðið með lögunum — ég hef engar efasemdir um að hæstv. ráðherra hefur þau markmið að reyna að bæta stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari og allt svoleiðis, ég geri ekki lítið úr því. Það kom hins vegar fram í meðförum samgöngunefndar á sínum tíma að ákveðin hætta væri í því sem sneri að uppskiptingunni í Farsýslunni og Vegagerðinni, að það væri hugsanlega tvíverknaður sem færi fram og það gæti orðið skörun en ekki væri þar með sagt að ekki væri hægt að breyta því. En það verður auðvitað að skoða þetta mjög sérstaklega og fara mjög vandlega yfir það.

Síðan hef ég líka gert mjög miklar athugasemdir við þennan fjárhagslega ávinning sem á að vera af þessu. Það er atriði sem verður að skoða sérstaklega. Við megum ekki verða fyrir vonbrigðum með að fá ekki skilvirkari og betri þjónustu og stjórnsýslu við það að ná fram þeim sparnaði. Við verðum auðvitað að gera raunhæfar kröfur. Ég sagði það þegar ég flutti fyrri ræðu mína að við erum bara núna, fyrr í dag, að breyta gildistöku laga vegna þess að ekki var hægt að gera það á viðunandi hátt.

Þess vegna segi ég að mjög mikilvægt er að gildistöku þessara laga verði frestað því að ég held að það sé mjög óraunhæft og í raun og veru ósanngjarnt að ætlast til að forstöðumenn þessara stofnana og starfsmenn þeirra geti orðið við því að gildistaka laganna verði 1. janúar 2013.