141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[18:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Orð mín um ríkisrekstur og samspil opinberra aðila og einkaaðila hvað það varðar voru almenns eðlis. Ég tel að í því mikla verkefni sem fram undan er, að tryggja að við náum að greiða niður skuldir íslenska ríkisins eins hratt og mögulegt er án þess að rof verði í þjónustu eða að við þurfum að draga um of úr þeirri þjónustu sem við viljum veita, þurfum við að vera opin fyrir öllum þeim möguleikum sem til staðar eru til að tryggja að þjónustan verði veitt fyrir sem minnst útgjöld ríkisins. Þá eiga menn að vera tilbúnir að skoða allt, sameiningu stofnana, skiptingu verkefna þeirra á milli og líka samstarf einkaaðila við ríkið hvað varðar veitingu þjónustunnar.

Ég hef ekkert skoðað það sérstaklega hvort eitthvað af þeim verkefnum sem hér um ræðir ætti betur heima hjá einhverjum öðrum en ríkinu, ég treysti mér ekki til að fjalla sérstaklega um það. En það sem ég mundi vilja sjá áður en þetta yrði að lögum — og það á við almennt um slíkar ákvarðanir eins og þá sem hér er verið að taka — snýr einmitt að spurningunni um það hvernig útfæra eigi hlutina og ná fram hagræðingunni.

Ég vísa aftur í greinargerðina með málinu þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Ekki liggur þó fyrir áætlun um það hvernig hagræðingin muni skiptast á milli Farsýslunnar og Vegagerðarinnar.“

Ég er viss um að hv. þm. Björn Valur Gíslason er sammála mér um að betur færi á því, og að það væri ágætt fyrir þingið, að þegar farið er í verkefni af þessu tagi væri búið að leggja það upp og það lægi fyrir skjalfest hvernig menn sæju það fyrir sér að hagræðingunni yrði náð. Það lægi þá bara fyrir og við gætum þá rætt það (Forseti hringir.) og lagt á það sjálfstætt mat hvort um raunhæfar væntingar væri að ræða eða ekki.