141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[18:15]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið varðandi þetta atriði. Ég skil hann þannig að það muni hafa áhrif á afstöðu hans til málsins ef það væri rætt á þeim forsendum hvort færa ætti rekstur þessara stofnana meira yfir í einkarekstur en verið hefur, að það gæti jafnvel haft þau áhrif á hv. þingmann að hann gæti ekki lagt þessu máli lið ef út í það yrði farið. Það væri því einn þáttur sem ætti að ræða til að ljúka þessu máli.

Við höfum verið með fleiri mál þessu lík til umfjöllunar, m.a. í samgöngunefnd. Ég nefni sameiningu þriggja lítilla nefnda sem er að hluta til þessu tengt, þ.e. slysarannsóknarnefnda í lofti, á landi og sjó. Sú sameining hefur ekki gengið eftir, hún hefur mætt mikilli andstöðu, reyndar á sömu forsendum þar sem efast er um faglega þáttinn sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni og fleiri, að það sé verið að offra faglega þættinum. Fyrir því hafa ekki verið færð neitt sérstaklega góð rök, hvorki í þessu máli né í því máli sem ég nefndi hér áðan og á kannski ekkert að vera að ræða um, þ.e. varðandi sameiningu slysarannsóknarnefndanna, það kemur kannski til umræðu síðar. Þetta eru klassísk rök gegn sameiningu. Þau eru nokkuð lagskipt, það er efast um hagræðinguna, það er efast um fagleg vinnubrögð o.s.frv. Þetta eru klassísk rök í allri umræðu um sameiningar af hvaða tagi sem þær eru. Við erum búin að fara í gegnum það hvað varðar sameiningu þessara stofnana. Um hana eru skiptar skoðanir en ég held þó að við höfum ekki verið með mörg mál eins og þetta þar sem er svo rík samstaða um sameiningu. (Forseti hringir.) Það er búið að fara í gegnum þetta í öllum stofnunum sem málið varðar og smám saman hefur það þróast þannig að ekki er, að ég tel, teljandi andstaða við sameiningu þessara stofnana. (Forseti hringir.) Það eru nægileg meðmæli að mínu mati til þess að ganga til verks og afgreiða málið með þeim hætti sem hér er lagt til.