141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

eignir útlendinga í íslenskum krónum.

[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þarna eru töluverðir fjármunir í húfi og miklu skiptir að vandað sé til verka í þessum efnum. Nauðasamningarnir sem núna eru fram undan munu hafa þó nokkur áhrif á íslenskt efnahagslíf vegna þess að hluti af þessu, eins og þeir 440 milljarðar sem hv. þingmaður nefndi, eru þess eðlis að þeir munu bætast við snjóhengjuna. Að vísu ekki nema helmingurinn af því að hinn helmingurinn er bundinn í eign í bönkunum og er kannski ekki eins kvikt fjármagn og hinn helmingurinn. Við gætum því hugsanlega verið með 650 milljarða kvika krónueign. Það er nú ástæðan fyrir því að við erum með þessi tímabundnu fjármagnshöft núna, til að hafa einhverja stýringu á því. Það er rétt að við þurfum að vanda vel til verka í allri þeirri vinnu þannig að ekki verði nein skekkja eða frekari erfiðleikar fyrir íslenskt þjóðarbú.

Það sem mér þykir áhugavert, virðulegi forseti, er að töluvert hefur verið kallað eftir því að þessu sé stýrt, að ferlið sé skýrt og við vöndum til verka. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvers vegna flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, var ekki tilbúinn til að samþykkja frumvarp 13. mars síðastliðinn sem hafði í raun og veru það markmið að koma í veg fyrir leka úr landinu í gegnum stutt skuldabréf og að styrkja samningsstöðu Seðlabankans í nauðasamningunum. Það skiptir máli að Seðlabankinn hafi töluvert mikið um það að segja hvernig fjármagnið sem kemur út úr þessum nauðasamningum fer úr landi. Það skiptir verulegu máli, virðulegi forseti. Ég var undrandi á því að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki tilbúinn til að samþykkja breytingu á lögunum þann 13. mars síðastliðinn til að tryggja þessa aðkomu. Ef það hefði ekki verið gert, virðulegi forseti, værum við fyrst í vandræðum.