141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[15:33]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þegar stofnanir eru lagðar saman eða þeim hreyft þá verður oft titringur og upp kemur ótti um framtíðina og stöðu starfsmanna og þeirra sem næstir standa. Ég held að í þetta sinn sé engin ástæða til slíks ótta. Ég held að við séum að gera vel, séum bæði að beita hagræðingu sem í þetta sinn er jákvæð og krefst ekki mikilla fórna og að bæta skilvirkni í stjórnsýslunni.

Eins og rakið var áðan þá hefur þetta mál tekið nokkuð langan tíma í þinginu, en að þeim leiðarlokum sem fram undan eru þakka ég tveimur forustumönnum í málinu, fyrrverandi samgönguráðherra, hv. þm. Kristjáni Möller, og núverandi hæstv. innanríkisráðherra og ráðherra samgöngumála, Ögmundi Jónassyni.