141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

hámarkshraði á Reykjanesbraut.

126. mál
[15:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu og fagna því í sjálfu sér að hæstv. ráðherra sé sammála því að stefna eigi að því að hækka hámarkshraða á Reykjanesbrautinni.

Ég kem þó upp til að gera athugasemd við að það sé einungis sagt í þessu samhengi að vegrið skuli sett upp og umferðaröryggi bætt á Reykjanesbrautinni. Við þurfum að setja öryggismál á Reykjanesbrautinni í forgang — punktur.

Nýverið varð alvarlegt umferðarslys á brautinni og við megum einfaldlega ekki láta það gerast einu sinni enn sem hefur allt of oft gerst í sögunni, að bregðast ekki við fyrr en einhver hefur slasast alvarlega eða látið lífið. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að öryggismálum á brautinni verði fyrir komið með sóma strax og að vegrið verði sett upp hið fyrsta vegna þess að við megum (Forseti hringir.) einfaldlega ekki við því að setja öryggi vegfarenda þarna í hættu. (Forseti hringir.) Sem betur fer hefur náðst gríðarlegur árangur í að fækka slysum á brautinni og þetta verður bara að klára.

(Forseti (RR): Hæstv. forseti beinir þeim tilmælum til þingmanna að virða ræðutímann.)