141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

hámarkshraði á Reykjanesbraut.

126. mál
[15:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja þessa spurningu fram. Það var mjög fróðlegt að fá svör frá hæstv. ráðherra. Mig langar að beina sjónum að umferðaröryggismálum á þessari leið. Að mínu viti er einfaldlega ekki búið að klára framkvæmdina þar sem eftir er að koma fyrir þeim vegriðum sem nauðsynleg eru til að tryggja umferðaröryggi á brautinni.

Samkvæmt mínum upplýsingum kostar hver kílómetri af vegriði á þessu svæði um 13 millj. kr. Þar sem þarf að vera tvöfalt vegrið kostar það um 20 millj. kr. Áætlun á að vera til um hvenær þetta allt saman verður sett upp. Það hlýtur að vera búið að tímasetja það hvenær menn einhenda sér í það verkefni. Hæstv. ráðherra hlýtur að ætla að upplýsa okkur í dag um þau áform í samhengi við þessa umræðu vegna þess að þessi atriði eru gríðarlega mikilvæg fyrir öryggi þeirra fjölmörgu sem leggja leið sína um brautina. Við hljótum að ætla okkur fyrst og fremst að tryggja öryggi þeirra (Forseti hringir.) sem ferðast um Reykjanesbraut.