141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

hámarkshraði á Reykjanesbraut.

126. mál
[15:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hygg að ég sé sammála flestu því sem fram hefur komið við þessa umræðu og ekki síst því sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda hvort sem hún bar í ræðu sinni niður norðan heiða eða sunnan.

Umferðaröryggismál hafa verið sett í forgang og þá einnig á Reykjanesbrautinni. Ég minni á að drjúgur hluti leiðarinnar hefur verið tvöfaldaður og hún hefur verið lýst upp. En eins og hér hefur réttilega komið fram skortir ýmislegt á og bent á öryggisatriði í þeim efnum, t.d. hvað varðar ljósastaurana. Vegrið hafa að einhverju leyti verið sett upp þannig að við höfum verið að þoka okkur í rétta átt. Ég minni enn á undirgöngin gegnt álverinu sem ég held að hafi verið hættulegasti kafli í samgöngukerfi landsins öllu þótt þar hafi sem betur fer ekki orðið slys. Þar var gríðarleg slysagildra.

Við erum því þrátt fyrir allt að þoka okkur fram á við en ég tek undir að þetta er sá akvegur í landinu þar sem umferð er einna mest og staðreyndin er náttúrlega sú að þetta er eðli máls samkvæmt umferðaræð þar sem fólki liggur iðulega á. Fólk er að koma frá heimili á vinnustað og er að fara í flug þannig að þarna þarf að vera greiðfarið. Ég tek undir það. En þegar okkur hefur tekist að fullnægja öryggiskröfum hef ég trú á því að við munum verða við óskum hv. þingmanns varðandi ökuhraðann. (REÁ: Hvenær fáum við vegrið?) — og vegrið náttúrlega líka þegar við höfum tök á því, en allt er þetta á vinnsluborðinu.