141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

skólatannlækningar.

156. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek hér fyrir mál er varðar skólatannlækningar sem eiga sér reyndar mjög langa sögu á Íslandi, ég rek hana allt aftur til 1928 ef ég man rétt. Skólatannlækningar voru fyrst teknar upp í Reykjavík og lengi voru grunnskólar í höfuðborginni ekki reistir án þess að gert væri ráð fyrir að skólatannlækningum væri sinnt í þaula, jók það mjög á tannheilbrigði barna og unglinga hér á Íslandi að því er sérfræðingar segja.

Sá þrýstingur var hins vegar uppi undir lok síðustu aldar að afnema hefðbundnar skólatannlækningar. Sá þrýstingur kom meðal annars frá almennum tannlæknum úti á markaðnum. Á endanum var það svo að af samkeppnisástæðum varð að víkja frá hefðbundnum skólatannlækningum á Íslandi fyrir réttum tíu árum, árið 2002.

Mér er þetta mál hugleikið. Ég hef aldrei skilið af hverju við setjum tannheilsu barna okkar skör neðar en aðra heilsu og sinnum þessu ekki af kostgæfni innan skólakerfisins eins og við sinnum svo mörgum öðrum málum. Það er jú skólaskylda í landinu og börn verða að mæta til síns skóla og þá skal skólinn líka sjá til þess eins og frekast er kostur að þeim líði þar vel.

Það er augljóst mál að tannheilbrigði okkar ágætu barna og unglinga hefur hrakað gríðarlega á þeim árum sem liðin eru frá því að við aflögðum skólatannlækningar. Börn sækja einfaldlega ekki þessa þjónustu í nógu ríkum mæli úti á markaðnum og þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvernig við getum snúið þessari þróun við.

Nú er ég ekki endilega að tala fyrir því að við komum aftur á fót skólatannlækningum í öllu sínu veldi eins og þær þekktust innan skólakerfisins frá því fyrir 2002. En mér finnst full ástæða til þess að grunnskólar á Íslandi taki með virkum hætti þátt í tanneftirliti, tannráðgjöf og eftir atvikum varnaraðgerðum, svo sem eins og með flúor og öðrum slíkum efnum sem geta slegið á þann gríðarlega vanda sem blasir við, en við höfum slegið Norðurlandamet í þessum efnum.

Frú forseti. Ég spyr því hæstv. velferðarráðherra spurninga er lúta að þessum málum (Forseti hringir.) og full ástæða er til að svara:

1. Kemur til greina að hefja skólatannlækningar að nýju hér á landi?

2. Hefur kostnaður við það verið kannaður?