141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

skólatannlækningar.

156. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem skapast hefur um skólatannlækningar og þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör, þau voru efnislega vel undirbúin. Ég vil jafnframt nota tækifærið til að þakka honum það frumkvæði sem varðar stofnun starfshópsins sem hann gat um í innleggi sínu, það þarf að skoða þetta mál frá öllum hliðum. Nú er ég ekki endilega talsmaður þess að koma á fót gömlu, góðu skólatannlækningunum í allri sinni mynd en ég er hins vegar sannfærður um að ekki verður bætt úr þessum málum nema grunnskólakerfið komi að einhverju leyti að því.

Reynslan af síðustu 10 árum er sú að hver svo sem niðurgreiðslan er þá skila börn sér ekki í miklum mæli til tannlækna. Á meðan eftirlitið er ekkert innan skólakerfisins verður væntanlega svo áfram að stór hluti barna sækir sér ekki þessa þjónustu út á markaðinn. Þess vegna finnst mér fyllilega eðlilegt að taka á þessum gríðarlega vanda — Norðurlandameti í tannskemmdum sem hefur illu heilli náðst á innan við 10 árum — með því að koma þessu með einhverju móti inn til skólanna. Þá er ég tala um eftirlit, upplýsingar og aðra slíka meðferð sem getur unnið gegn þessari þróun.

Ég spyr hæstv. ráðherra hreint og beint hver afstaða hans sé til þess að skólarnir komi á einhvern hátt að þessum málum. Ég tel eðlilegt að það verði skoðað mjög ítarlega hvernig skólarnir geti tekið upp einhverja þjónustu af þessu tagi. Við getum deilt um hversu mikil hún eigi að vera en spurningin til hæstv. ráðherra er þessi: Er hann sammála mér um að aðkoma skólanna verði að vera einhver til þess að hægt sé að spyrna við fótum?