141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

breytingar á jafnréttislöggjöf.

135. mál
[16:30]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir hefur beint til mín þeirri fyrirspurn hvort ég hafi í hyggju að breyta jafnréttislöggjöfinni í kjölfar niðurstaðna kærunefndar jafnréttismála í málum er varða stöðuveitingar í tveimur ráðuneytum.

Ég neita því ekki að þessi mál hafa vakið mig til umhugsunar enda er ávallt mikilvægt að vel sé vandað til ráðninga í störf og skipun í embætti hjá hinu opinbera. Hefur það gefið okkur tilefni til að skoða hvernig unnt sé að tryggja að farið sé að lögum í ráðningarferli, að hæfnisnefndir og ráðherrar sem og aðrir vinni samkvæmt lögum og velji um leið hæfasta starfsfólkið. Enginn ráðherra vill brjóta jafnréttislög. Í ljósi þessa hefur okkur þótt mjög mikilvægt að fara vel yfir málin enda sitja stjórnvöld við sama borð og aðrir vinnuveitendur í þessu landi, við verðum að fara að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Forsætisráðherra fól rýnihópi þriggja sérfræðinga að fara yfir ferli undirbúnings skipunar í embætti. Samkvæmt erindisbréfi var hópnum falið að fara yfir matsferli ráðgjafa, greina og meta hvað væri ólíkt með þeim forsendum er lagðar voru til grundvallar, niðurstöðum ráðgjafa og embættismanna forsætisráðuneytisins annars vegar og þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála hins vegar. Þá var rýnihópnum ætlað að meta hvaða lærdóm mætti draga af ferlinu í heild, hvort ástæða væri til að breyta vinnubrögðum og/eða löggjöf til samræmingar og þá hvernig.

Rýnihópurinn skilaði svo greinargerð sinni í apríl 2011. Ég fagna vinnu rýnihópsins og tel hana mikilvægt innlegg í umræðuna. Enn fremur tel ég vel koma til greina að þeir sem fara með yfirstjórn starfsmannamála hjá ríkinu fái frekara álit sérfræðinga á sviði ráðninga svo tryggja megi að það ferli sem fram fer við undirbúning og ákvarðanir um ráðningar og skipanir innan íslenskrar stjórnsýslu leiði til þess að hæfasti umsækjandi sé valinn samhliða því að ákvæði jafnréttislaga séu virt. Það tvennt þarf ávallt að fara saman. Það er því mikilvægt að þróa og bæta ráðningarferli þannig að markmiði jafnréttislaga verði náð og um leið að hæfasti umsækjandinn sé ráðinn. Það þarf tvímælalaust að líta til úrskurða kærunefndar jafnréttismála sem eru fordæmisgefandi í þessum málum sem og dóma Hæstaréttar.

Kærunefnd jafnréttismála var sett á laggirnar til að auðvelda einstaklingum að leita réttar síns teldu þeir á sér brotið á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ætluð brot á lögum um jafna stöðu og rétt kvenna og karla verða borin undir kærunefndina hvort sem hinn ákærði er stjórnvald eða fyrirtæki sem starfar á almennum vinnumarkaði. Kærunefnd jafnréttismála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem er óháð öllu boðvaldi annars stjórnvalds, hvort heldur um ráðherra eða aðra stjórnvaldshafa er að ræða . Með öðrum orðum get ég sem ráðherra hvorki gefið nefndinni sérstök fyrirmæli um málsmeðferð né sagt hver niðurstaðan eigi að vera. Þannig á það auðvitað að vera til að ráðherra geti ekki hlutast til um málefni kærunefndar. Enn fremur verður niðurstöðum kærunefndar ekki skotið til annars stjórnvalds og eru ákvarðanir hennar því endanlegar innan stjórnsýslunnar. Ávallt er þó heimilt að leita til umboðsmanns Alþingis vegna starfa nefndarinnar.

Með nýjum jafnréttislögum frá mars 2008 fóru úrskurðir kærunefndarinnar úr því að vera einungis ráðgefandi álit yfir í það að vera bindandi fyrir aðila málsins, eins og hv. þingmaður vitnaði í. Tilgangur þeirrar breytingar var meðal annars að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi. Ég styð heils hugar þá breytingu og hef sagt það opinberlega að ráðherrar eigi að sjálfsögðu að hlíta úrskurði kærunefndar. Ég sé raunar enga ástæðu til þess að breyta því ákvæði að svo stöddu. Það er engu að síður ljóst að þær ákvarðanir sem felast í úrskurðum kærunefndar jafnréttismála hljóta ávallt að teljast matskenndar, hvert tilvik er sérstakt og þarfnast sérstakrar skoðunar. Verður að ætla að kærunefndin verði að leggja mat á öll þau gögn sem málsaðilar leggja fyrir hana og skoða málin frá grunni eins og almennt er gert ráð fyrir að kærunefndir er starfa innan stjórnsýslunnar geri þegar þær taka ákvarðanir. Sömu reglur gilda um kærunefnd jafnréttismála að þessu leyti sem og aðra þá sem taka matskenndar ákvarðanir innan stjórnsýslunnar og er þar mikilvægt að þau málefnalegu sjónarmið sem byggt er á geti leitt með skynsamlegum hætti til þeirrar niðurstöðu sem komist er að með hliðsjón af málsatvikum.

Hæstv. forseti. Ég vil hins vegar nýta tækifærið og upplýsa að ég hyggst leggja fram frumvarp til laga um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði í nóvember næstkomandi. Er því frumvarpi ætlað að innleiða efni tilskipunar nr. 78/2000 um bann við mismunun á vinnumarkaði ásamt hluta tilskipunar nr. 43/200/EB um jafna meðferð einstaklinga án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna. Það á sem sagt að leiða í íslensk lög. Samhliða því mun ég leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna svo gætt sé samræmis í skilgreiningum á mismunandi lögum. Einnig er til skoðunar að útvíkka hlutverk Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála þannig að þeim verði jafnframt falið að fjalla um þá mismununarþætti sem Evróputilskipanirnar taka til. (Forseti hringir.) Gefst þá hv. þingmönnum ágætt tækifæri til að fara málefnalega yfir hlutverk kærunefndar jafnréttismála telji þeir slíkt nauðsynlegt. Svarið er sem sagt að engin áform eru um að breyta jafnréttislögunum á þessu stigi. Aftur á móti verðum við að vinna að því að stilla saman hvernig við metum hæfi og ráðum í störf og þær kröfur sem við viljum uppfylla, þ.e. að staða kynjanna sé jöfn.