141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

breytingar á jafnréttislöggjöf.

135. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi og ráðherrar gefi þau skilaboð út í þjóðfélagið að fólk sé jafnt þegar það sækir um stöður, jafnt karlar og konur. Ég skora því á hæstv. ráðherra að beita sér í því að það sé agi í framkvæmd laga.

Á laugardaginn voru greidd atkvæði um nýja stjórnarskrá. Ef ekki er agi við framkvæmd laga og stjórnarskrár er til lítils að setja nýja stjórnarskrá eða yfirleitt að setja lög. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að menn fari að lögum, og sérstaklega hæstv. ríkisstjórn sem er fyrirmynd, og taki á þeim vandamálum með auðmýkt en ekki hroka.

Ég hef bent á að kannski væri gáfulegra, og ég tel það fullvíst, að fara í jafnréttisvottun fyrirtækja og stofnana þannig að þau fái vottað að þau beiti jafnréttislegum aðferðum við ráðningu starfsfólks.