141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

fjárveitingar til menningarverkefna úti á landi.

242. mál
[17:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hún er mjög þörf og gott að vekja þessa umræðu.

Ég sat ekki alls fyrir löngu á ársfundi SSS sem eru Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þar kom einmitt fram gagnrýni á þetta fyrirkomulag í ljósi þess að Suðurnesjamenn telja sig fá hlutfallslega of lítið af styrkjum miðað við aðra landshluta. Þeir horfa þannig á þessa reiknireglu að líta eigi til mannfjölda frekar en fjarlægðar frá höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar að spyrja, ef ég má og hæstv. ráðherra getur bætt því inn í svar sitt, hvort að einhverju leyti sé tekið tillit til landsvæða eins og Skaftárhrepps, sem telst til Suðurlands og er inni í þeirri púllíu, og hvort ráðuneytið geti á einhvern hátt beitt sér fyrir því að þessi sérstöku framlög (Forseti hringir.) berist á það landsvæði sem á mjög undir högg að sækja.