141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

fjárveitingar til menningarverkefna úti á landi.

242. mál
[17:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tjáð sig. Fyrst vil ég segja að það hefur verið mjög mikill niðurskurður á framlögum til menningarmála undanfarin þrjú ár, í kringum 20% að jafnaði. Auðvitað finnst fyrir því í kerfinu hvort sem er hjá menningarstofnunum eða bara vítt og breitt um landið í gegnum sjóði og í einstökum verkefnum. Þessi niðurskurður er auðvitað farinn að bíta.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um norðaustursvæðið. Ef við miðum við fjárlög 2011 þá var það talsvert af verkefnum af norðaustursvæðinu. Ég minni á að verkefni á vegum norðausturnefndarinnar eru ekki inni í þessu þannig að þau eru ekki inni í þeirri tölu sem hv. þingmaður nefndi. Ef við gerum hins vegar samanburð lengra aftur í tímann er engin leið að átta sig á þessu þar sem það var í raun engin regla á því hvernig fjármunir skiptust við úthlutanir fjárlaganefndar. Stóra málið er, að mínu mati, að með þessum hætti erum við að gæta aukins jafnræðis í framlögum til menningarstyrkja í gegnum menningarsamninga, með viðmiðunum. Ég er sammála hv. þingmanni um að eðlilegra sé að miða við fjarlægð frá höfuðborginni og samgöngur og stærð innan svæða en mannfjölda. Ég held að það séu eðlilegri vinnubrögð. Við fórum í gegnum mjög mikla umræðu um þetta í ráðuneytinu þegar við unnum að þessu.

Við þurfum að sjálfsögðu að laga okkur að nýju kerfi. Gallinn við það að úthlutanir lækka í fjárveitingum er að einhver verkefni þurfa þar af leiðandi undan að láta. Þess vegna er mjög mikilvægt að við förum núna yfir afraksturinn, skoðum hvaða verkefni urðu út undan og hvort við viljum taka einhver þeirra sérstaklega út fyrir sviga. Hv. þingmaður nefndi í fyrri ræðu sinni að kannski ættu einhver verkefni til dæmis fremur heima á föstum samningi eða eitthvað slíkt. Það er nokkuð sem við munum þurfa að fara yfir.

Ég tek að lokum undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: Stóru viðmiðin hjá okkur eiga að vera gagnsæi og að beita faglegum vinnubrögðum. Við eigum að tryggja faglega meðferð allra umsókna. (Forseti hringir.) Ég er trúuð á að það eigi eftir að nýtast landinu öllu sem best.