141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

eyðing lúpínu í Þórsmörk.

178. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um það með hvaða hætti staðið hafi verið að eyðingu lúpínu í Þórsmörk og nágrenni. Ég tel að ljóst sé að við þurfum að fá upplýsingar um hvernig það er gert.

Ég veit að sumir hafa væntingar til þess að hér fari fram mikil umræða um kosti og galla lúpínunnar. Ég hætti mér inn á það jarðsprengjusvæði með því að skrifa það á alheimsnetið að ég ætlaði að leggja þessa fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra. Ljóst er að skoðanaskipti hafa verið mikil á facebook-síðu minni um þetta mál. Þetta virðast vera einhvers konar trúarbrögð, með eða á móti lúpínunni.

Ég er þeirrar skoðunar að lúpínan hafi gert gagn á svæðum þar sem áður voru svartir sandar. Ég er fædd og uppalin í Landeyjum og þar sem mitt fólk er sjálfstæðisfólk þá keyrðum við að sjálfsögðu í gegnum Hvolsvöll út á Hellu til að versla vegna þess að þar var sjálfstæðisbúðin. Þar á milli voru svartir sandar. Þegar ég var ung stúlka lentum við oft í sandbyl á þessum ferðum okkar. Nú er það allt saman breytt og við þekkjum áhrifin sem lúpínan hefur haft, bæði þar og á Skógasandi og víðar. En við ætlum ekki að fjalla um það heldur með hvaða hætti farið er í það að eyða lúpínu þar sem menn telja að hún eigi ekki heima. Ég veit til þess að reynt hefur verið að eyða lúpínu í nágrenni Þórsmerkur, ekki beinlínis í Þórsmörk sjálfri samkvæmt þröngri skilgreiningu, en til að menn átti sig á hvaða landsvæði ég á við þá ákvað ég að orða fyrirspurnina með þessum hætti.

Ljóst er að þar sem lúpínan er látin eiga sig vex hún, hafi hún til þess skilyrði. Ef bregðast á við því á stöðum eins og þessum þar sem menn vilja ekki sjá frekari útbreiðslu plöntunnar er spurning um hvernig það verður gert. Hvernig er hægt stemma stigu við útbreiðslu lúpínunnar? Það er annars vegar hægt með því að slá hana nokkrum sinnum yfir nokkurra ára tímabil og þar með eyðist hún úr umhverfinu, en eins er hægt að gera eyða henni með eitri.

Mig langar til að vita það með hvaða hætti ráðist er í eyðingu á þessu svæði vegna þess að mér finnst það skipta gríðarlega miklu máli hvernig við förum í svona mál þegar um er að ræða eina af okkar helstu náttúruperlum.