141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Þrætur og karp um þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardaginn eru ekki góður fyrirboði um störf þingsins í vetur. Störf þingsins hafa notið lítils trausts og lítillar virðingar. Því aðeins mun þingið geta endurheimt traust og virðingu að því þingi sem nú situr takist að ljúka því verki að setja landinu nýja stjórnarskrá á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn.

Stjórnarskrárnefndin vann sitt verk. Þúsund manns sem valdir voru af handahófi komu alls staðar að og þeir unnu sitt verk. Tugir þúsunda manna tóku þátt í atkvæðagreiðslu í þeim tilgangi að kjósa sér stjórnlagaráð. Það 25 manna ráð sem síðar var skipað lauk sínu verki. Þjóðin kom að því og hún kláraði sinn hlut í atkvæðagreiðslu. Alþingi verður, ég endurtek, verður að sýna að það rísi undir því að ljúka þessu ferli sem svo margir hafa lagt svo mikla vinnu í svo lengi. Til þess þurfa bæði meiri hlutinn og minni hlutinn að gæta þess að beita ekki hvor annan ofbeldi. Ég held að allir þingmenn ættu að hugleiða hvernig endir það yrði á þessu umbrotasama kjörtímabili ef það endaði eins og hið síðasta með málþófi og næturfundum þar sem einn stjórnmálaflokkur reynir að leggjast í veg fyrir að aðrir í þinginu geti gert þær breytingar á stjórnskipan landsins sem lýðræðislegur meiri hluti er fyrir.