141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætlaði að koma hingað upp út af allt öðru máli sem tengist meðal annars ítölskum jarðvísindamönnum en get ekki látið hjá líða, þó að ég sé að taka núna þátt í þeirri umræðu sem réttilega hefur verið þjófstartað hér um stjórnarskrá og stjórnlagabreytingar, að nefna að hægt er að túlka niðurstöðurnar með ýmsum hætti. Ég tek undir það sem hefur komið fram í máli flestra, ábyrgð okkar hér er að setjast niður, fara yfir þær og reyna að ná sameiginlegri sátt um þá niðurstöðu og afurð sem þingið vill koma frá sér.

Mín tilfinning og mín skoðun á atkvæðagreiðslunni á laugardaginn er ekki sú að þjóðin hafi verið að senda þinginu skilaboð um að við ættum að vinna hér í einhverri spennitreyju eða spreng fram að kosningum. Við eigum að vanda okkur, við þurfum að breyta stjórnarskránni, en okkur ber að vanda okkur í því verkefni sem fram undan er hvar í flokki sem við stöndum.

Aðeins að ítölsku jarðvísindamönnunum og málinu sem snertir þá og þann sex ára dóm sem ítalskir jarðvísindamenn hafa fengið vegna mikilla jarðskjálfta sem urðu fyrir nokkrum árum á Ítalíu. Það mál minnir okkur á hversu mikilvægt það er að við búum í lýðræðisríki, búum í ríki sem virðir meðal annars akademískt frelsi og tjáningu þeirra sem vinna innan vísindageirans. Ég tek þetta meðal annars upp í ljósi þess að ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd og við erum að fjalla þar um styrki til opinberra vísindarannsókna. Það skiptir okkur máli að við höfum þannig umhverfi að fólkið okkar, hvar sem það er, hvort sem það eru vísindamenn innan menntakerfisins eða atvinnulífsins, geti tjáð sig og haft skoðanir en verði ekki til þess að kerfið sem slíkt, ríkið, fari að þagga niður í fólki eða að það þurfi að finna einhverja blóraböggla eins og greinilegt er á Ítalíu með því að benda á ítalska jarðvísindamenn.

Þetta finnst mér hættulegt og þess vegna finnst mér þetta líka brýning til okkar sem hér erum um að vanda til verka hvar sem við erum og ekki síst þegar kemur að stjórnarskránni.