141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Fyrst ég kemst hér að í annað sinn get ég ekki á mér setið þegar ég sé hæstv. utanríkisráðherra ganga í salinn og vekja athygli á tilkynningu sem barst frá utanríkisráðuneytinu í gær, tilkynningu um að hið háa Evrópusamband sé nú reiðubúið að ræða við Íslendinga um 3. og 4. kaflann í aðildarviðræðunum, en það eru kaflarnir um fjárfestingar og svokallaðan staðfesturétt sem er meðal annars rétturinn til að stofna fyrirtæki.

Loksins er þá komið að hinum svokölluðu erfiðu köflum í þessum viðræðum. (Utanrrh.: Við erum löngu komin að þeim.) Það er ekki löngu komið að þeim, hæstv. utanríkisráðherra, eins og ráðherrann veit vel sjálfur. Við höfum verið að takast á í utanríkismálanefnd, m.a. um orðalag og samningsmarkmið í 12. kafla sem varðar matvælaöryggi og innflutning lifandi dýra og nú vil ég leggja til við hæstv. utanríkisráðherra að við gerum þá kröfu til Evrópusambandsins að við ræðum þessa erfiðu kafla alla saman. Það hefur komið í ljós í vinnunni í nefndinni, sem blasir við, að kaflarnir um matvælaöryggi og landbúnaðinn eru náskyldir. Nú erum við að takast á um orðalag, hversu hart við eigum að ganga fram í orðalagi til að krefjast þess sem meðal annars kemur fram í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá því að þingsályktunartillagan var samþykkt, þ.e. hvort við eigum að gera ófrávíkjanlega kröfu, m.a. um það hvort við eigum að heimila innflutning lifandi dýra eða ekki. Það sem ég hef áhyggjur af ef við gefum eftir í orðalagi í þessum kafla er hvað verður þá og hvaða fordæmi það skapar fyrir hina erfiðu kaflana, landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann. Fyrst Evrópusambandið er búið að opna á þetta núna tel ég að við eigum að gera þá kröfu á móti að taka þetta allt í einum pakka þannig að við getum samræmt orðalag og kröfur okkar í þessum erfiðu köflum.