141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:21]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel að kosningarnar síðastliðinn laugardag hafi tekist mjög vel. Þátttakan er að mínu mati góð í ljósi þess að um ráðgefandi en ekki bindandi eða endanlega afgreiðslu máls er að ræða. Í öðru lagi má nefna að búið er að kjósa allmikið á Íslandi að undanförnu og einhverjir hefðu kannski talið að menn væru að verða þreyttir á því. Ekki hefur það heldur haft neikvæð áhrif að séð verði frekar en, í þriðja lagi, ítrekaðar tilraunir ýmissa afla til að tala þetta mál niður og gera lítið úr vægi og gildi þessara kosninga. Allt er þetta mikið fagnaðarefni, að þjóðin tók til sinna ráða og mætti á kjörstað og sendi skýr skilaboð.

Það er í öðru lagi mjög mikill kostur að leiðsögn Alþingis frá þessari kosningu er tiltölulega afdráttarlaus. Auðvitað hefði mönnum á margan hátt verið meiri vandi á höndum ef ein eða fleiri af spurningunum hefðu fallið nokkurn veginn hnífjafnt. En það varð ekki. Þetta er þar af leiðandi gott veganesti. Ég tel að okkur sé enginn sérstakur vandi á höndum að taka nú við þessu kefli og leysa málið vel af hendi.

Ef ég má leyfa mér að setja mig í túlkunarstellingar mundi ég segja: Í fyrsta lagi eru þetta mjög skýr skilaboð um að þjóðin vill nýja stjórnarskrá; hún vill nýja stjórnarskrá.

Í öðru lagi að þjóðin telur aðild sína að þessu ferli og þátttöku sína í þessu mikilvæga. Hún skynjar nefnilega og veit að þetta er stjórnarskráin hennar sem hér er undir. Um leið lýsir hún ánægju sinni með það ferli sem hófst með þjóðfundi, kosningu til stjórnlagaþings sem varð að stjórnlagaráði og tiltölulega opnu vinnuferli sem hefur gefið mikið færi á því að hafa áhrif á gang mála, koma tillögum á framfæri o.s.frv.

Í þriðja lagi held ég að það sé alveg augljóst mál að þjóðin er að senda þau skilaboð að hún vill að þetta verk verði til lykta leitt. Hún átti þann einfalda kost að segja: Nei, við skulum henda þessu og byrja upp á nýtt. Það valdi hún ekki og var þó talsvert gert í því að gera það torkennilegt hvaða gildi það hefði að fá þessa kosningu og leiðsögn sem í henni var fólgin. Þjóðin vill að haldið sé áfram á þeim grunni sem tillögur stjórnlagaráðs og allt þetta ferli hafa lagt.

Jafnljóst er auðvitað að menn verða að vera meðvitaðir um að lokafrágangur málsins er í höndum Alþingis. Það stóð á kjörseðlinum, að minnsta kosti þeim sem ég krossaði á. Það á ekki að þurfa að þrátta mikið um það, það liggur fyrir, sem og yfirlýsingar þingmanna hér í umræðum, t.d. í kosningavikunni. Að sjálfsögðu þarf Alþingi að hafa svigrúm til þess að leggja lokahönd á þetta verk og greiða um það atkvæði, því þannig gerist það. Að lokum eru það atkvæðin í þessum þingsal sem ráða því hvort nýtt frumvarp til stjórnarskipunarlaga verður að lögum og fylgir okkur inn í næstu alþingiskosningar.

Varðandi úrslitin eru þau að sjálfsögðu misafdráttarlaus. Það stendur upp úr, sem er mikið ánægjuefni, að svo yfirgnæfandi meiri hluti þess helmings kosningabærra manna sem mætti á kjörstað vill ákvæði í stjórnarskrá um að auðlindir, náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign, að um það þarf ekki að þrátta mikið, 82,5%.

Í öðru sæti kemur vilji manna til þess að persónukjör verði heimilað í ríkari mæli en nú er, tæp 78%, því fagna ég sérstaklega að við hverfum frá þeirri neikvæðu nálgun sem persónukjör hefur falið í sér fram að þessu í jákvæða nálgun.

Í þriðja sæti kemur ósk þjóðarinnar um eða stuðningur við að menn geti krafist þess að stór mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, beint lýðræði.

Í fjórða sæti kemur fyrsta spurningin sjálf með rétt tæplega 2/3 stuðning. Þegar kemur að spurningum þrjú og fimm eru niðurstöðurnar ekki jafnskýrar, það þarf að hafa í huga þegar úr þeim er lesið. Það má líka nefna að í fimmtu spurningunni birtist okkur sá veruleiki að verulegur munur er á afstöðu kjósenda eftir því hvar þeir eru búsettir í landinu, það þurfum við allt að hafa í huga.

Við viljum að það búi ein þjóð í þessu landi með eina stjórnarskrá og að hún sé sátt. Alþingi stendur frammi fyrir mjög skýrri áskorun, að skila nú sínum hlut. Okkur er ekkert að vanbúnaði að gera það.