141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Virðulegi forseti. Ég þreytist ekki á því að tala um hve flott mér finnst allt þetta ferli vera. Þjóðfundur í upphafi, slembiúrtak kemur saman í Laugardalshöll, fer yfir helstu gildin og stjórnarskrárnefnd vinnur úr öllum þeim tillögum og þeirri vinnu. Svo er kosið stjórnlagaráð, upphaflega stjórnlagaþing. Það vinnur úr þessu öllu saman og nær samkomulagi um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Þegar maður útskýrir þetta ferli fyrir útlendingum og fer yfir það finnur maður hversu rosalega flott þetta er og einstakt. Maður skynjar því miður ekki alltaf í þessum sal að öllum finnist þetta einstakt. Í öllu falli hefði mér fundist alveg gríðarlega sorglegt ef þetta einstaka ferli hefði endað núna um helgina. Ég finn fyrir mikilli gleði í hjartanu yfir því að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu eins og þær voru. Þær eru afgerandi, við eigum að halda þessu áfram.

Núna er boltinn sem sagt kominn hingað. Eins og alltaf var lagt upp með þá mundi boltinn einhvern tíma koma hingað. Við ætluðum að leita ríks samráðs á undan og nú er hann kominn hingað með mjög miklu veganesti. Nú reynir á okkur.

Þá langar mig að segja: Reynum að bera virðingu fyrir allri þeirri vinnu sem farið hefur fram, öllu þessu ferli. Lesum skýringarnar með tillögunum, reynum að skilja þær. Setjum okkur inn í málið. Reynum, með öðrum orðum, að vinna þetta hér (Forseti hringir.) eins og stjórnlagaráð vann þetta, allt það ólíka fólk sem kom þar saman og sameinaðist um tillögur. Við hljótum að geta það líka.