141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir flest af því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði um náttúruauðlindirnar. Ég er hins vegar ósammála því sem fram kom hér að þetta ferli allt hafi verið mjög flott. Það var mjög flott fram að því að kosið var til stjórnlagaþings. Sú kosning klúðraðist einfaldlega eins og allir vita. Það sýndi sig líka í þeirri kosningu að það er algjörlega út í hött að vera með persónukjör og landið sem eitt kjördæmi enda kom á daginn að eingöngu tveir fulltrúar á landsbyggðinni náðu kjöri. Ég hef miklar áhyggjur af því að sá texti sem er í tillögum stjórnlagaráðs endurspegli það.

Herra forseti. Það hefur verið mikið rætt um þjóðina hér og ég missti raunar töluna á því hversu oft hæstv. forsætisráðherra nefndi þjóðina í ræðu sinni. En hvað er það sem þjóðin vill nákvæmlega? Þegar hæstv. forsætisráðherra talar um þjóðina í þessu sambandi þá sögðu 33% kosningabærra Íslendinga já við því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Það er eingöngu 23% allra Íslendinga. 23% allra Íslendinga sögðu já. Hvað er þá þjóðin? Ég meina, eru þessi 23% þjóðin? (Gripið fram í.) Eða eru það allir? Þegar hæstv. ráðherra talar um þjóðina verður hún að skýra það aðeins betur fyrir okkur. (Gripið fram í.) Það er mjög sérkennilegt að fullyrða að þjóðin vilji eitt og þjóðin vilji annað þegar tölurnar tala sínu máli.

Það er kannski ekki stóra atriðið í þessu. (Gripið fram í.) Stóra atriðið er að sjálfsögðu: Hvað ætlar þingið að gera núna við þær tillögur sem eru komnar fram? Hvernig ætlum við að vinna úr þeim? Þar held ég að við verðum að hlusta vandlega eftir ráðgjöf sem hefur meðal annars komið frá fyrrverandi formanni stjórnlagaráðs þar sem hún leggur til að þingið skoði nú vandlega þessar tillögur, gefi sér tíma til að fara yfir þær, vegi og meti hvaða tillögur sé hægt að ná sátt um og reyni að ná sátt um þær, en vandi umfram allt vinnu sína. Það er nákvæmlega það sem bíður okkar hér, að vanda þessa vinnu. Ég hygg að flestir stjórnlagaráðsfulltrúar vilji einmitt að menn vandi vinnu sína. Ég skora því á formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að tryggja það að þessi vinna fari sem fyrst af stað þannig að við höfum nógan tíma til að fara yfir þær greinar sem er hugsanlega einhver ágreiningur um í tillögum stjórnlagaráðs.

Ég velti líka fyrir mér hvort það frumvarp sem kemur fram verði frumvarp um nýja stjórnarskrá eða frumvarp um breytingar á gildandi stjórnarskrá. Það skiptir kannski ekki höfuðmáli en að sumu leyti væri betra að breyta núgildandi stjórnarskrá vegna þess að mörgum finnst eðlilegra að gera það í staðinn fyrir að skrifa nýja. Gleymum því ekki, en það er kannski ekki mikill munur þar á. Ég ætla ekki að gera ágreining úr því.

Ég vil koma því á framfæri að mikilvægt er að menn fari vandlega og málefnalega yfir þær tillögur sem liggja fyrir frá stjórnlagaráði, þær athugasemdir sem þingmenn hafa sett fram og horfi að sjálfsögðu líka til þess hvað þeir sem komu og kusu lögðu áherslu á. Ég tek mikið mark á því. Það er alveg kristaltært að mikill meiri hluti vill — og það hafa svo sem aðrar skoðanakannanir sýnt okkur — auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Ég tek að sjálfsögðu undir það.

Sumir kalla hérna fram í að menn eigi ekki að láta eins og í leikskóla. Það er nú samt þannig að þegar menn tala um þjóðina og eigna sér þjóðina þá er betra að hafa það á hreinu hversu stóran hluta þjóðarinnar er verið að tala um.