141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er gömul saga og ný að máli skiptir frá hvaða sjónarhóli er horft þegar atkvæðagreiðslur eru krufnar og atkvæðagreiðslan á laugardag er þar engin undantekning. Mér finnst hins vegar miður að hlusta á suma forustumenn stjórnarflokkanna leggja sig fram um það að tala sérstaklega einn flokk niður í bollaleggingum sínum. Ég tel það ekki málinu til framdráttar eða breyta neinu sem færir okkur fram á við.

Við skulum skoða aðeins laugardaginn. Var þátttakan á laugardaginn góð? Nei, hún var ekkert sérstök en hún var ekki slök. Voru skilaboðin skýr? Nei, ekkert sérstaklega en það þarf samt ekki neina „enigma-vél“ til að átta sig á stóru skilaboðunum á laugardaginn sem eru þau að fólkið vill breytingar. Eftir stendur að mínu mati að atkvæðagreiðslan leysir okkur sem hér erum ekki undan þeim skyldum sem á okkur hvíla og stjórnarskráin okkar mælir fyrir um.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég er þeirrar skoðunar að fara eigi hægt í breytingar á stjórnarskrá. Hún er viðvarandi verkefni sem hefur að mínu mati tekist nokkuð bærilega að breyta eða um sex sinnum og þar af veigamiklum köflum eins og mannréttindakaflanum þar sem þverpólitísk vinna og samstaða var lykill að mikilvægum breytingum fyrir mannréttindi í landinu.

Stjórnarskráin okkar frá því 1944 var samþykkt með 95% atkvæða af þeim 98% Íslendingum sem kusu þá. Slík samheldni næst vart aftur ef ég á að vera raunsæ en þó verður að gera þá kröfu að í jafnmikilvægu máli láti verulegur hluti þjóðarinnar sjá sig á kjörstöðum. Hann hefur gert það í almennum þingkosningum. Hann gerði það t.d. í Icesave-kosningunum. Það segir okkur að þegar málið er brýnt mætir þjóðin. Því er eðlilegt og það á ekki að særa einn eða neinn að spyrja hvort aðferðafræði ríkisstjórnarflokkanna til að breyta stjórnarskránni hafi orðið til þess að meiri hluti þjóðarinnar sat heima. Eitthvað virkaði alla vega ekki. Þetta er hins vegar að baki, þetta er liðið. Eftir stendur að við þurfum að breyta stjórnarskránni. Það er okkar verkefni og til þess þurfa allir að leggja sig fram. Við þurfum að hlusta á fræðimenn. Við þurfum að hlusta á formann stjórnlagaráðs sem er til að mynda ósammála formanni stjórnlaganefndar þingsins um að hægt sé að breyta þessu í sátt og breyta þessu í áföngum. Mér finnst það skynsamleg nálgun.

Ég tel líka í ljósi þess hve skammur tími er eftir af þinginu og að við þurfum að koma mikilvægum málum í gegnum þingið, sem snerta heimilin og fjölskyldurnar í landinu, að við komum með skynsamlega nálgun á þessu. Þjóðin vill breytingar, eins og ég gat um, en ekki setja Alþingi í spennitreyju. Það er augljóst að þjóðin vill auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það höfum við sjálfstæðismenn stutt. Það á ekki að vera vandamál. Að mínu mati er hægt að ná saman um forsetakaflann. Það sama gildir um lágmarkshlutfall þeirra sem geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Mín skoðun er sú að það hlutfall eigi að vera hátt. Við skulum bara ræða það. Við getum náð saman um þetta.

Við þurfum að ræða fleira eins og Sigurður Líndal hefur bent á. Framsalsákvæði til alþjóðlegra stofnana: Við erum ekki með ákvæði eins og Norðmenn hafa í stjórnarskrá sinni. Þetta þurfum við að gera til að EES-samningurinn stangist ekki á við okkar stjórnarskrá. Persónukjör: Fólk vill ráða meiru og hafa meiri áhrif á niðurröðun lista en nú er. Ég verð að viðurkenna að þetta er ekki vandamál í mínum flokki sem er stór og mikil fjöldahreyfing. Ég hef tekið þátt í prófkjörum þar sem eru 6, 8 og allt upp í 10 þús. manns. Þetta er ekki vandamál. Ef fólk vill hafa meiri áhrif á niðurröðun á kjörseðli þá skulum við bara ræða það.

Það sama tengist jöfnun kosningarréttar, jöfnun atkvæðisréttar. Það eru nokkuð sem hafa verið skiptar skoðanir um innan allra flokka. Mín fyrstu orð í þessum stól á vorþingi 1999 var að tala um jöfnun atkvæðisréttar. Mín skoðun hefur ekkert breyst í þá veru. En það má ekki leiða til þess að þetta verði öfugþróun, þ.e. misvægið verði í hina áttina. Ég er ekki að biðja um það. Ég er að biðja um að menn finni lausnir og nái saman um verklag til að leiðrétta þetta misvægi.

Herra forseti. Ég hef hér nefnt nokkur mikilvæg atriði sem hafa þýðingu fyrir þjóðina. Við skulum reyna að ná samkomulagi og sátt um þessi atriði. Afstaða okkar sjálfstæðismanna til breytinga á stjórnarskránni hefur aldrei snúist um það að engar breytingar megi gera heldur einungis það að stíga eigi varlega til jarðar, virða það sem vel hefur reynst og ná sátt um þau mál sem eru þjóð okkar til framdráttar.