141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:15]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Virðulegi forseti. Laugardagurinn var mikill hamingjudagur. Þeir sem nýttu kosningarrétt sinn töluðu skýrum rómi. Það er engin ástæða til að draga úr þeirra skilaboðum eða draga þá ályktun að þeir sem heima sátu hafi verið annarrar skoðunar. Slíkt túlkunarstríð er öllum til minnkunar sem í því taka þátt. En berum samt virðingu fyrir því að það sem gerist í þessu flókna ferli er hvorki auðvelt né sjálfsagt, í því felast vaxtarverkir því að við sem þjóð erum að vaxa inn í beina þátttöku í lýðræðinu, bæði kjósendur og kjörnir fulltrúar.

Ég vænti þess að tvennt gerist núna í kjölfarið: Í fyrsta lagi að auðmjúkir alþingismenn skilji mikilvægi þess að bregða sér upp úr hjólförum fortíðarátaka og klára málið með sóma og fallegu samtali á þingi. Í öðru lagi að kjósendur haldi áfram að þrýsta á Alþingi að klára málið, að þeir gerist ekki værukærir og leyfi málinu að fjara út.

Stundum er betra að leyfa öðrum að tala fyrir sig því að stundum leynast skýrustu skilaboðin í óræðum ljóðum. Með leyfi forseta er Hamingja Íslands eftir Jón Óskar hæfandi ljóð tileinkað landsmönnum öllum á þingi og utan þess:

Hamingja Íslands er fjarri þessum degi

og langar nætur skiptast á að byrgja

þá döpru þjóð sem leitar að sér sjálfri

og langar nætur skiptast á að vaka

dökkum skuggum yfir þessu landi

og þessum degi meðan brjóst þitt sefur

og enginn þekkir röddina sem hrópar

í gegnum stunur vindsins, hamingja Íslands

er fjarri og þó mókir hún í sofnu

brjósti þínu, földum undir vængjum

langra nótta; og ef brjóst þitt vaknar,

þá lifnar hamingja Íslands og þú nemur

röddina, sem kallar stöðugt á þig.