141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2011 sem dreift hefur verið á þskj. 303. Í frumvarpi þessu eru annars vegar lagðar til breytingar á fjárheimildum vegna frávika í ríkistekjum stofnana milliuppgjörs tekna samkvæmt ríkisreikningi 2011 og áætlunar þeirra í fjárlögum og fjáraukalögum 2011 og hins vegar gerðar tillögur um niðurfellingar á fjárheimildastöðum í árslok. Þá fylgir frumvarpinu yfirlit um fjárheimildastöður í árslok 2011 sem gert er ráð fyrir að verði fluttar til ársins 2012. Frumvarpið er einnig til staðfestingar á niðurstöðum ríkisrekstrarins samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2011.

Uppbygging frumvarpsins er með sama hætti og verið hefur undanfarin ár og tillögur um uppgjör og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok byggjast á sömu viðmiðunarreglum og áður. Í fylgiskjali 2 er yfirlit yfir talnagrunn frumvarpsins. Yfirlitið sýnir uppruna allra fjárheimilda ársins 2011, bæði fyrir ríkissjóð í heild og líka einstök viðfangsefni. Þar er um að ræða fluttar stöður fjárheimilda frá fyrra ári, fjárlög, fjáraukalög, millifærðar heimildir innan ársins og breytingar á fjárheimildum vegna frávika ríkistekna samkvæmt þessu frumvarpi. Því næst eru tilfærð útgjöld samkvæmt ríkisreikningi og loks fjárheimildastaða í árslok, þ.e. mismunur fjárheimilda og reikningsfærðra útgjalda.

Heildarfjárheimildir á árinu 2011 námu 544,6 milljörðum kr., útgjöld samkvæmt ríkisreikningi urðu 575,9 milljarðar, afgangsheimildir eru 23,3 milljarðar og umframgjöld 54,6 milljarðar. Fjárheimildastaða í árslok er því neikvæð um 31,3 milljarða og svarar það til 5,8% af heildarfjárheimildum ársins. Þar vegur þyngst gjaldfærsla í ríkisreikningi 2011 á 20,2 milljarða kr. endurgjaldi ríkissjóðs til Landsbankans hf. vegna stofnfjárframlags og ábyrgða á innstæðum eftir yfirtöku bankans á SpKef sparisjóði í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar frá 7. júní á þessu ári. Einnig vegur þar þungt um 7,1 milljarður kr. vegna niðurfærslna á eignarhlut ríkissjóðs í Byggðastofnun og 4,9 milljarðar kr. niðurfærsla á eignarhlut ríkissjóðs í Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins sem gjaldfærðar voru í reikninginn. Þá voru gjaldfærðir í ríkisreikning 3,5 milljarðar kr. vegna fasteigna í eigu ríkisins sem voru afhentar fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðra milli stjórnsýslustiganna. Loks má í þessu sambandi nefna að útgjöld vegna fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir sjálfum sér urðu 1,2 milljörðum kr. hærri en fjárheimildir vegna breytinga á reikningsskilum varðandi stofna til skattsins. Hér er um að ræða reikningshaldslegar uppgjörsfærslur sem samtals nema nærri 37 milljörðum kr. og voru ófyrirséðar við afgreiðslu fjáraukalaga ársins 2011 þar sem þær eru gerðar við lokun á ríkisreikningi um hálfu ári síðar.

Að þessum óreglulegu uppgjörsfærslum frátöldum var árslokastaða gagnvart fjárheimildum í heildina tekið jákvæð um 5,6 milljarða.

Í frumvarpinu er að vanda lagt til að árslokastöður verði annaðhvort felldar niður, eins og fram kemur í 2. gr., eða yfirfærðar til næsta árs eins og fram kemur í fylgiskjali 1.

Vík ég þá nánar að lagagreinum frumvarpsins. Í 1. gr. frumvarpsins, samanborið nánari skiptingu í sundurliðun 1, eru tillögur um breytingar á fjárheimildum ársins 2011 vegna frávika markaðra skatttekna og annarra rekstrartekna stofnana frá áætlunum fjárlaga og fjáraukalaga. Alls er lagt til að fjárheimildir verði auknar um tæplega 896 millj. kr. samkvæmt þessu uppgjöri á fjármögnun stofnana og verkefna með mörkuðum ríkistekjum. Nánar tiltekið er hér leitað eftir heimild Alþingis fyrir því að ráðstafa þessum tekjum, ýmist í samræmi við það hverjar þær urðu samkvæmt uppgjöri ríkisreiknings eða hver metin fjárþörf reyndist vera. Almennt gildir að útgjaldaheimildir hækka ef markaðar ríkistekjur til fjármögnunar á útgjöldum stofnana og verkefna hafa verið umfram fjárlög en lækka hafi tekjurnar reynst minni. Þetta viðmið er þó ekki algilt því að ekki eru lagðar til breytingar á fjárheimildum vegna ríkistekjufrávika ef ekki er beint samband milli útgjaldaþarfar og fjármögnunar á þann hátt að breytingar í tekjum hafi bein áhrif á kostnað eða ef útgjaldaheimildir í fjárlögum eru ákvarðaðar út frá verkefnum án tillits til hugsanlegra breytinga á fjármögnun með mörkuðum ríkistekjum.

Í 2. gr. frumvarpsins, samanborið nánari skiptingu í sundurliðun 2, eru tillögur um niðurfellingar á fjárheimildastöðum í árslok 2011. Ráðstafanir á fjárheimildastöðum í árslok byggjast á viðmiðunarreglum þar sem einkum er litið til þess hvort útgjöldin séu lögbundin eða stjórnist frekar af hagrænum, kerfislægum eða reikningshaldslegum þáttum heldur en fjármálastjórn tiltekins stjórnsýsluaðila. Einnig er miðað við að yfirfærsla milli ára á afgangsheimildum í almennum stofnanarekstri og reglubundnum rekstrarverkefnum fari almennt ekki umfram 10% af fjárlagaveltu viðkomandi verkefna nema sérstakar ástæður séu taldar til annars. Heimildastaða verkefnis í árslok fellur einnig niður ef viðkomandi verkefni er lokið.

Tilgangur þess að takmarka yfirfærslu rekstrarfjárheimilda milli ára er að koma í veg fyrir að heimilt verði að efna til umtalsverðra útgjalda umfram fjárlög, enda auka útgjöld sem efnt er til á grundvelli yfirfærðra fjárheimilda kostnað og skuldasöfnun ríkissjóðs á nákvæmlega sama hátt og útgjöld sem efnt er til á grundvelli heimilda í fjárlögum viðkomandi árs. Við undirbúning frumvarpsins var farið yfir þau tilvik þar sem afgangsstöður fjárheimilda eru umfram framangreint viðmið. Í ljós kom að málsatvik voru í nokkrum tilvikum með þeim hætti að fagráðuneytin töldu nauðsynlegt að flytja meiri afgangsheimildir til ársins 2012. Dæmi um slíkt er ef framkvæmd verkefna hefur frestast yfir áramót eða ef stofnað hefur verið til skuldbindinga á grundvelli fenginna fjárheimilda sem ekki voru greiddar út og gjaldfærðar á árinu. Að öðru leyti hefur verið farið yfir alla fjárlagaliði eins og jafnan áður við undirbúning lokafjárlaga og tillögur um yfirfærslu eða niðurfellingar gerðar með hliðsjón af málsatvikum samkvæmt sömu viðmiðunarreglum og áður.

Á rekstrargrunni falla niður 44,7 milljarðar kr. gjöld umfram heimildir en á greiðslugrunni falla niður 1,2 milljarða gjöld umfram heimildir. Mismunur milli rekstrargrunns og greiðslugrunns hvað varðar niðurfelldar fjárheimildastöður er 43,4 milljarðar og skýrist að mestu leyti af óreglulegu liðunum sem ég fór yfir hér áðan. Til viðbótar má nefna aðra óreglulega liði sem þó hefur að miklu leyti verið gert ráð fyrir í fjárheimildum fjárlaga, þ.e. niðurfellingu 4,6 milljarða kr. umframgjalda vegna afskrifta skattkrafna og niðurfellingu 4,1 milljarðs kr. umframgjalda vegna gjaldfærðrar breytingar á skuldbindingum ríkisins í tengslum við lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Í öllum þessum tilvikum er um að ræða reikningshaldslegar gjaldfærslur umfram fjárheimildir án greiðslna úr ríkissjóði á árinu.

Í fylgiskjali með frumvarpinu er yfirlit yfir fjárheimildastöður sem gert er ráð fyrir að yfirfærist til ársins 2012. Hrein aukning fjárheimilda á árinu 2012 vegna þessara ráðstafana nemur rúmlega 13,3 milljörðum kr. eða sem svarar til 2,3% af gjaldaheimild fjárlaga 2012.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir meginþætti frumvarpsins. Með því eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður úr rekstri ríkissjóðs gagnvart fjárheimildum á árinu 2011 og vísast í því sambandi til greinargerða í fjáraukalögum og ríkisreikningi um meginatriði í framvindu ríkisfjármála og helstu frávik í tekjum og gjöldum. Ég legg til þegar þessari umræðu verður lokið, virðulegi forseti, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.