141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[15:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2011. Enn og aftur gerist það sem eru svo sem engar fréttir að lokafjárlög eru lögð fram löngu seinna en ríkisreikningur, sem er auðvitað bagalegt. Það á ekki að vera þannig — lokafjárlögin eru reyndar bara þingskjal með ríkisreikningi, þannig að það þarf að verða breyting á því.

Ef ég sný mér að frumvarpinu sjálfu kemur fram í 1. gr. frumvarpsins — ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar um málið — að verið er að bregðast við svokölluðum mörkuðum tekjum, að mestu leyti, þ.e. að sækja um útgjaldaheimild löngu eftir að hún er samþykkt. Sem undirstrikar það hversu mikilvæg sú breyting er sem unnið hefur verið að í góðri samvinnu fjármálaráðuneytisins og hv. fjárlaganefndar um að allir þeir mörkuðu tekjustofnar sem unnt er að setja beint inn í ríkissjóð fari þangað inn. Ekki þarf að hafa mörg orð um það. Þá getur maður komið að því hver aðkoma og geta þingsins er til að gera breytingar á því frumvarpi sem er lagt fram, en hún er nánast engin vegna þess að það er búið að ráðstafa þeim fjármunum sem hér um ræðir og ekki er hægt að bregðast við því.

Síðan mundi ég halda að lokafjárlög fyrir árið 2011 yrðu samþykkt einhvern tímann eftir áramót án þess að ég ætli að fullyrða neitt um það, en það er svona reynslan í gegnum árin. Nú á þetta eftir að fara til umsagnar hjá Ríkisendurskoðun og svo í framhaldi af því sýnist mér að það mundi hugsanlega dragast fram yfir áramót.

Ég geri mér hins vegar væntingar um það, og hef kannski engar efasemdir um það heldur, að það sem muni gerast við þessi lokafjárlög verði sams konar vinna og var farið í við lokafjárlög 2010. Í þó nokkuð langan tíma var lögð töluverð vinna í það af hálfu hv. fjárlaganefndar. Hv. fjárlaganefnd átti einmitt mjög gott samstarf við fjármálaráðuneytið þar sem voru gefnar skýringar á þeim hlutum eða fjárhæðum sem eru ýmist felldar niður, felldar niður að hluta eða færðar yfir. Sú vinna var mjög fín í fyrra. Ég sat fund bæði með fjármálaráðuneytinu og eins með Ríkisendurskoðun þar sem farið var í gegnum þetta, og það voru engar athugasemdir gerðar við það. Það er auðvitað mjög mikilvægt að unnið sé með þeim hætti áfram. Ég hef eins og ég sagði áðan engar efasemdir um að svo verði.

Það sem ég staldra aðeins við í upphafi máls míns eru þessir 4,9 milljarðar sem er niðurfærsla á eignarhlut ríkissjóð í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sem eru gjaldfærðar í reikningnum. Ég geri ekki athugasemd við niðurfærsluna sem slíka vegna þess að væntanlega hefur hún verið tekin á þeirri forsendu, sem kemur reyndar fram, að eignarhluturinn sé ekki meira virði. Og þess vegna sé hann færður til raunvirðis.

Það sem ég geri hins vegar alvarlegar athugasemdir við er að sá gjörningur, þ.e. niðurfærslan á eignarhlutnum, hefur aldrei verið kynnt fyrir hv. fjárlaganefnd, aldrei komið þar til tals af hálfu iðnaðarráðuneytisins eða neinna þeirra sem um þetta mál fjalla. Það hlýtur því að þurfa að kalla á yfirsýn með ríkisfjármálunum í heild sinni. Það er mjög sérstakt að verið sé að færa 5 milljarða niðurfærslu út úr þeim sjóði án þess að hafa nokkurn tímann komið til umræðu í hv. fjárlaganefnd sem fer, eins og allir vita, yfir þessa hluti.

Síðan getum við svo sem endalaust rætt um árangurinn, eins og gert var í andsvörum og svörum hæstv. ráðherra við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Ég vil nálgast þetta út frá því hvert verkefnið er í raun og veru. Verkefnið er gríðarleg skuldsetning ríkissjóðs og það er gríðarlega mikilvægt að við förum að greiða niður skuldir. Við sjáum hvernig það hefur verið undanfarin ár. Í raun og veru eru fjárlög og fjáraukalög, þegar er búið að samþykkja þau, sem eru þá heildarfjárheimildir viðkomandi árs, þær eru bara væntingar um það sem muni gerast á komandi ári. Hins vegar er ríkisreikningur og lokafjárlög niðurstaðan sem kemur út úr rekstri viðkomandi árs. Það sjáum við klárlega í þessu máli þar sem fjárlög og fjáraukalög gerðu ráð fyrir að rekstur ríkissjóðs mundi kosta 527 milljarða en niðurstaðan er hins vegar tæpir 576 milljarðar, það skeikar um tæpa 50 milljarða.

Síðan má halda því fram, og það er auðvitað rétt, að kannski er stærsti hlutinn af því einhvers konar einskiptisaðgerðir, sem klárlega er í þessu tilfelli. En við megum samt ekki ganga út frá því að þeim sé lokið. Þær munu að mínu mati halda áfram að koma fram, því miður. Besta dæmið um það er eins og kom fram hér áðan fjárþörf í Íbúðalánasjóði upp á mjög háar tölur og svo mætti eflaust telja margt fleira.

Mig langar aðeins að staldra við verkefnið sem er fram undan. Ég hef sagt það áður að ég tel mjög mikilvægt, og ég er sammála hæstv. ráðherra, að við þurfum ekki að deila um það að við þurfum að ná tökum á að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Hvernig gerum við það? Ég held að það sé lífsnauðsynlegt eða bráðnauðsynlegt fyrir Alþingi að setja sér svokallaða fjármálareglur til að setja ákveðin bönd á stjórnmálamennina á hverjum tíma, sama hvaðan þeir koma, því að verkin og það sem verið er að gera sýnir manni að oft á tíðum er ekki mikill skilningur á því.

Ef við förum yfir fjárlögin fyrir árið 2013, yfir svokallaða fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar — ég ætla ekki að leggja mat á það hversu góð eða slæm hún er — þá er gert ráð fyrir að selja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjunum og fá arðgreiðslur út úr þeim fyrirtækjum til að hrinda af stað þessari fjárfestingaráætlun. Þó er ákveðinn varnagli á því að ekki megi raska því að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum, en það hafa því miður ekki allir hæstv. ráðherrar mjög mikinn skilning á því. Það kom berlega fram í umræðum við 1. umr. um fjárlögin fyrr í haust.

Síðan verður að spyrja þeirrar spurningar, þegar verið er að selja eignarhluti í fyrirtækjum eða eignir ríkisins á annað borð, hversu skynsamlegt það er að setja þær í aukinn rekstur í staðinn fyrir að greiða niður skuldir. Mikið er talað um hvað þurfi að gera en verkin sýna aðra vegferð. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Það verður að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs og það verður að setja fjármálareglur til að gera það, því annars er verið að velta vandamálunum inn í framtíðina á komandi kynslóðir. Það blasir einhvern veginn við að mjög mikilvægt er að fara yfir þessi mál.

Þegar ég kem að því sem snýr að umframútgjöldum þar sem afgangsheimildir eru færðar á milli, þá verðum við að átta okkur á því að afgangsheimildirnar eru margar kunnuglegar að því leyti til að það eru ákveðnir liðir — við getum nefnt Ofanflóðasjóð, Framkvæmdasjóð aldraðra og fleira og fleira sem eru með ákveðin framlög inni. Þeim liðum er ekki ráðstafað í neinar framkvæmdir aðrar en þessar þannig að mikilvægt er að átta sig á því að umfangið í rekstri ríkisins í mörgum stofnunum hefur verið að ganga á svokallaðan uppsafnaðar heimildir, eða eins og stundum hefur verið sagt, að ganga í hlöðurnar. Þær eru margar hverjar því miður að tæmast hjá mörgum stofnunum. Það er því mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þó svo að afgangsheimildir sem færast á milli lækki ekki nema um 3 milljarða þá segir það ekki allt um það þótt talan sé ekki hærri sem því nemur, því það mun vigta mjög mikið á aðra. Það er mikilvægt að það verði gert líka með þeim hætti, og það verður vonandi gert núna eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að til umfjöllunar verði þessi óskrifaða regla sem er að það megi færa 10% að hámarki en síðan eru 4% sem má safna upp á viðkomandi ári. En það eru samt ákveðnir liðir hér sem vekja upp spurningar, ég ætla svo sem ekki að fara yfir þær en mikilvægt er að það verði gert við meðferð málsins í hv. fjárlaganefnd.

Síðan er það hið kunnuglega, að ekki er tekið á þeim vanda sem snýr að til dæmis Landspítalanum, sem er nú kannski skýrasta og besta dæmið, sem er með um tæplega 3 milljarða í uppsafnaðan halla og er settur í svokallaða frystibrúsameðferð á meðan viðkomandi stofnun heldur sig innan fjárlaga. Og það eru fleiri stofnanir sem falla þarna undir. Það hefur margoft verið talað um það í umræðum um fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög að tekið verði á því. Viðkomandi forstöðumönnum verði gert að ganga frá þeim hlutum, hvort sem þeir þurfa að vera með stofnunina hallalausa í tvö, þrjú eða fjögur ár, og það sama gildi í raun og veru um alla. En það býður upp á geðþóttaákvarðanir eins og þetta er, að sumir geti fengið frystan hala en aðrir ekki.

Við sáum það á heilbrigðisstofnunum á síðasta ári. Sumir fóru mjög stíft eftir því sem lagt var upp með, aðrir ráku stofnanir inn í halla og voru þær þá settar í svokallaða frystibrúsameðferð eins og ég hef kallað það. Það er mjög ósanngjarnt. Þetta er hvati til að verðlauna skussana, eins og ég hef stundum sagt. Það megum við ekki gera á þann hátt eins og hefur verið gert. Það þarf að vera hafið yfir vafa hvernig staðið er að þessum hlutum.

Mig langar til að koma aðeins inn á eitt í restina. Maður staldrar við — ég ætla ekki að fara mjög djúpt ofan í tæknilega vinnu gagnvart þessu frumvarpi fyrr en það kemur í nefndina og ég ætlast ekki til þess að hæstv. ráðherra geti brugðist við einhverjum einstaka hugleiðingum mínum. En það vekur athygli mína eftir að ég fór lauslega í gegnum þetta að mikið er um svokallaðar millifærslur, þ.e. sem menn eru að færa út af safnliðum hjá viðkomandi ráðuneytum. Kannski eru eðlilegar skýringar á þessu, væntanlega eru þær það. Hins vegar vekur það athygli að mjög mikið er um millifærslur út úr óskiptum pottum. Það hefur trúlega eðlilegar skýringar.

Þó staldra ég við eitt atriði sem ég mun fara betur yfir og ræða í nefndinni. Sett var inn í fjáraukalög ársins 2011 nám á framhaldsstigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði, verkefnið Nám er vinnandi vegur held ég að sé kallað. Það er ákveðinn skiptipottur sem er síðan deilt niður á menntastofnanir eftir því hvað þær taka mikinn þátt í þessu verkefni. Heimildin inni í þessu er 220 milljónir. Ráðstafað er úr pottinum eða millifært úr honum 210 milljónir og heimild skilin eftir upp á 10 milljónir, síðan er reikningur upp á 26 milljónir. Þannig að liðurinn er skilinn eftir í mínus 16 milljónum. Þetta skil ég ekki sjálfur prívat og persónulega svona í fyrstu atrennu við að fara yfir þennan hluta.

Það vakna auðvitað upp spurningar sem ég fæ væntanlega svör við þegar við fjöllum um þetta mál nánar, hvort þetta sé einhver umsýslukostnaður eða hvernig það má vera að þegar verið er með ákveðinn millifærslulið í fjáraukalögunum, eða þá í fjárlögunum, skuli hann koma negatífur út. Það finnst mér mjög sérkennilegt að skildar eru eftir 10 milljónir en síðan er settur reikningur upp á 26 milljónir, sem gerir það að verkum að niðurstaðan og staðan í árslok, sem er millifærð yfir á árið 2012, skuli vera negatíf. Ég tel mikilvægt að hv. fjárlaganefnd fari vel yfir þetta til að vita hvað þarna liggi að baki. Við höfum heyrt og fengið gagnrýni hjá Ríkisendurskoðun sem hefur komið skýrt fram þar sem hún hefur iðulega bent á að oft sé verið að færa — eða hafi verið fært, að minnsta kosti, ég ætla ekki að taka sterkar til orða, út úr svokölluðum millifærsluliðum, sem snýr að því að ráðuneytið færi inn á aðalskrifstofurnar af verkefnum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég vonast til og vænti þess að hv. fjárlaganefnd muni fara eins ítarlega og vandlega yfir þetta frumvarp og gert var árið 2010. Þar mun þeim spurningum sem ekki er svarað hér í þessari umræðu verða svarað. Ég treysti á að gott samstarf verði við ráðuneytið hér eftir sem hingað til og ég tel gríðarlega mikilvægt að Ríkisendurskoðun bakki okkur upp í þeirri vinnu sem fram undan er.