141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[16:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir óska nýjum fjármálaráðherra velfarnaðar í starfi og vonast eftir góðu samstarfi við hana eins og fjárlaganefnd hefur átt við fyrirrennara hennar. Það skiptir miklu máli að samstarfið sé gott vegna þess að nú hefur verið ráðist í breytingar á fjárreiðulögum. Það er ágæt samstaða um það í fjárlaganefnd að auka aga og breyta vinnubrögðum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fjármálaráðherra blandi sér í þá vinnu og stígi þau skref sem fjárlaganefndin hefur lagt til og talað fyrir undanfarin ár.

Það spannst smáumræða um skuldastöðu ríkissjóðs áðan á milli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og það er rétt að það er áhyggjuefni hverju sem um er að kenna. Ríkissjóður var skuldlaus á árunum 2007–2008 en ég get ekki látið hjá líða að minnast á að þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók til starfa árið 2007 voru ríkisútgjöld aukin um heil 20%. Ég held að sá gjörningur hafi átt stóran þátt í því að skapa þann vanda sem við glímum við í dag. Að vísu voru aðrar hugmyndir um hvernig færi á Íslandi. Ég held að margir hafi samt séð að þenslan í hagkerfinu mundi leiða af sér það hrun sem svo varð.

Ég held að vert sé að geta þess einnig að Svíar gengu í gegnum sambærilega erfiðleika fyrir um 20 árum og þeir tóku verulega til í sinni fjárlagagerð. Þeir juku agann og nú dettur engum manni í hug að lofa upp í ermina á sér, lofa fjármunum sem ekki eru til staðar í framkvæmdir. Ráðherrar hafa ekki heimild til þess að útdeila fjármunum eins og því miður er enn þá hér á landi. Við skulum vona að það myndist breið og góð samstaða um að breyta fjárreiðulögum. Ég held að það sé kominn tími til, ef ég man rétt þá var það síðast gert í lok síðustu aldar, í kringum 1998.

Staða fjárheimilda í árslok 2011 er neikvæð um 31,3 milljarða kr. og svarar það til um 5,8% af heildarfjárheimildum ársins. Þessi staða skiptist í 23,3 milljarða kr. afgangsheimildir og 54,6 milljarða umframgjöld. Umframgjöldin skýrast að stærstum hluta af um 37 milljarða kr. óreglulegum og einskiptisuppgjörsfærslum sem flestir færast á liði undir fjármálaráðuneytinu.

Það var ekki gert ráð fyrir fjárheimildum á móti þessum útgjöldum í fjárlögum eða fjáraukalögum. Má segja að það hafi verið erfitt að spá fyrir um þau að nokkru marki þar sem um er að ræða gjaldfærslur í ríkisreikningi sem ráðast af ákvörðunum um forsendur reikningshaldslegs uppgjörs eftir að árið er liðið. Ég vil samt meina að stór hluti þess sem féll á SpKef hafi verið fyrirsjáanlegur. Ég tek undir það sem hefur verið sagt í umræðunum, 16 milljarða sveifla á þeim samningi sem fjármálaráðuneytið og Bankasýslan gerðu sín á milli er eitthvað sem þarf að skoða og breyta í framtíðinni.

Í mínum huga lá fyrir að tapið mundi lenda með einum eða öðrum hætti á ríkissjóði, jafnvel þó að kannski hafi verið erfitt að gera sér í hugarlund að það yrði jafnmikið og raun ber vitni. Þetta fellur undir svokallaðar ríkisábyrgðir og þar er tilgreindur stofnkostnaður fyrir Sparisjóð Keflavíkur upp á 19.198 milljónir en ef þar bætist við niðurfærsla hlutafjár fáum við þessa rúmu 20 milljarða sem getið er í lokafjárlagafrumvarpinu.

Það er annað sem ég hef áhyggjur af og vert er að skoða. Rekstrarvandi Landspítalans upp á 2,9 milljarða er áfram færður á milli ára. Það er ekki gerð sú krafa að ná hagræðingunni og klára hallann heldur verður það verkefni komandi kynslóða og væntanlega næstu ríkisstjórnar að taka á þessum vanda. Það er stærsti liðurinn en það má einnig benda á minni liði eins og lögreglustjórann á Suðurnesjum þar sem um 142 millj. kr. halli er færður á milli ára. Það er vissulega jafnvægi innan ársins en embættinu er gert að dragnast með hallann áfram. Það er enn meira áhyggjuefni að okkar ágætu háskólar á landsbyggðinni, Hvanneyri og Hólar, bæta enn á þann vanda sem fyrir er.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga janúar til mars árið 2012 segir að það sé vissulega svigrúm til þess að minnka þann vanda sem blasir við. Því miður virðist traust á Ríkisendurskoðun hafa brostið að einhverju leyti en ég hvet ríkisstjórnina og Alþingi allt til þess að sameinast um að auka á trúverðugleika stofnunarinnar. Hún er í rauninni okkar eina tæki til þess að fylgja eftir þeim fjárheimildum sem gefnar eru í fjárlögum og eina tækið til eftirfylgni um meðferð á fjármunum.

Þetta skiptir gríðarlegu máli við að ná fram þeim aga í ríkisfjármálum sem við höfum talað um. Annað vandamál sem blasir við er að ríkisstjórnin sjálf setti sér markmið í skýrslu fjármálaráðuneytisins um jöfnuð í ríkisbúskapnum fyrir árin 2009–2013. Vísitalan mælist í hæstu hæðum. Það átti að vera búið að ná henni niður í 1,6% fyrir árið 2012 en hún mælist vel yfir 4,4% og hefur verið stöðug þar í allnokkurn tíma. Ef eitthvert tæki er betra en annað til þess að minnka sveiflur í hagkerfinu þá er það agi í ríkisbúskapnum og honum verður einfaldlega ekki náð nema allir flokkar á Alþingi tileinki sér ný vinnubrögð og þá tel ég mikilvægt að horft verði til Svíþjóðar eins og ég minntist á áðan.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að þessu sinni. Ég vænti góðs samstarfs í fjárlaganefnd eins og hefur verið að undanförnu. Það þarf að fara í gegnum marga liði og bera saman á milli ára. Það er mikið um tilfærslur þar sem fjárheimildir eru færðar til sem bendir til þess að við þurfum að stíga þau skref sem þarf til þess að auka agann vegna þess að ég tel að við þurfum að horfa til skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hefur bent á að slíkt gangi ekki til lengdar.