141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

legslímuflakk.

22. mál
[16:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni og meðflutningsmönnum hennar kærlega fyrir þessa tillögu. Ég held að hér sé um afar þarft mál að ræða og miklu meira en það vegna þess að það eru svo margir sem þekkja alls ekki til sjúkdómsins. Því held ég að þessi tillaga um að ráðherra beiti sér fyrir fræðslu um sjúkdóminn skipti mjög miklu máli. Ég velti fyrir mér og langar til að spyrja hv. þingmann: Sér hann fyrir sér einhvers konar samstarf velferðarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis þannig að við mundum reyna að setja fræðslu um þetta málefni í skólakerfið? Eða hugsar hv. þingmaður sér þetta öðruvísi?

Göngudeildin er síðan mjög spennandi kostur af því málið er nokkuð afmarkað og eðlilegt að safnað sé þekkingu um það á einum stað. Þá leiðir maður hugann að því hve landið er dreifbýlt. Sér hv. þingmaður fyrir sér að við mundum tengja fræðsluna og þjónustuna við kvennadeildir, fæðingardeildir og jafnvel ljósmæður sem starfa vítt og breitt um landið? Mér þætti gaman að heyra aðeins frekar hjá hv. þingmanni hvernig hún hafi hugsað sér þetta. Hvernig getum við háttað þjónustunni við konurnar og fræðslunni úti í hinum dreifðu byggðum?