141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

legslímuflakk.

22. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið og spurningarnar. Eins og ég hafði hugsað mér þetta, og það er nefnt í greinargerðinni, þá er mjög mikilvægt að koma á framfæri upplýsingum við starfsfólk heilbrigðis- og skólastofnana. Við höfum þar horft til þeirrar starfsemi sem er á vegum landlæknis. Landlæknisembættið hefur nú þegar ákveðna upplýsingaskyldu gagnvart skólastofnunum vegna lýðheilsuhlutverks síns. Ég teldi mjög eðlilegt að ráðherra mundi fela þeirri stofnun að sinna þessu verkefni. Landlæknir mundi líka þróa þær klínísku leiðbeiningar sem rætt er um í tillögunni.

Ég hef síðan heyrt frá sérfræðingum að það eru tvö sjónarmið uppi, þau sem hér koma fram um mikilvægi þess að reyna að greina vandann snemma en að sama skapi viljum við ekki reyna að greina hann of snemma því að einstaklingur getur verið með verki við blæðingar án þess að um sé að ræða legslímuflakk. Kona getur líka verið án verkja en samt mjög illa haldin af einhverri ástæðu, það liggur ekki alveg fyrir hver er ástæðan fyrir því að verkir þurfa ekki alltaf að vera hluti af þeirri flóknu sjúkdómsmynd sem hér er fjallað um.

Þeir sérfræðingar sem ég ráðfærði mig við við vinnu þessarar tillögu sáu það fyrir sér og bentu á að nú þegar væri jafnvel aðstaða til staðar, það þyrfti bara fjármagn til rekstrar og til að borga fyrir starfsfólk, við kvennadeildina á Landspítalanum. Það væri sams konar fyrirkomulag og sjá má á Norðurlöndunum, þar er valið eitt sjúkrahús eða eins og í Danmörku eru það tveir staðir sem sinna mjög stóru svæði. Það tengist fyrst og fremst því, eins og talað er um hér, að til þess að draga úr líkum á því að aðgerðirnar verði fleiri verður að koma til ákveðin tækni, þeir sem sinna meðferð á þessum sjúkdómi verða að hafa ákveðna hæfni.