141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

ætlað samþykki við líffæragjafir.

28. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef velt því mikið fyrir mér hvort hér sé verið að ganga of langt og ég tel að svo sé ekki. Það er vegna þess að aðstandendur hafa í raun áfram síðasta orðið eins og er í dag. Í dag hafa aðstandendur síðasta orðið, jafnvel þótt einstaklingurinn hafi ekkert gefið í skyn. Við erum því ekki að breyta því. Við erum hins vegar að létta aðstandendum að taka ákvörðun af því að það er gengið út frá því að fólk sé samþykkt nema að það hafi sagst ekki vilja gefa líffæri og komið því til skila til ættingja sinna eða til stjórnvalda eða landlæknis. Í dag tekur landlæknir á móti skilaboðum frá þeim sem vilja gefa líffæri. Það er reyndar svolítið þungt ferli, ég reyndi að gera það og gafst upp, ég er bara með líffærakort í staðinn í töskunni minni. Ég hef líka talað svo mikið fyrir málinu að engum ætti að blandast hugur um hvað ég vil ef ég mundi falla frá á þennan máta.

Ég hef velt því fyrir mér hvort betra sé að merkja í skattframtal eða, eins og minnst er á í greinargerðinni, að merkja í ökuskírteini. Það er til dæmis gert í Ástralíu. Ég hef séð svona ökuskírteini, það er bara merkt þar.

Ég held hins vegar að ekki þurfi að fara í svo þungt ferli. Ég held að betra sé að gera ráð fyrir því, eins og mörg ríki hafa ákveðið og hafa ekki átt í neinum vandræðum með það, að fólk vilji almennt gefa líffæri í siðuðu samfélagi. Þess vegna viljum við vita ef fólk vill það ekki. Það sé skemmtilegri, eðlilegri, réttari og siðferðilegri nálgun að ganga út frá því að fólk vilji gefa en að fá að vita ef það vill gefa. Samt á að gefa aðstandendum síðasta orðið.

Ég tel að þeir sem eru mjög á móti því að gefa líffæri muni gefa það upp við aðstandendur og sína nánustu eða komi því til skila til landlæknis. Hér hafa verið nefndar trúarlegar ástæður og það eru fullt af ástæðum sem fólk getur haft fyrir því að vilja ekki gefa. Það á að virða þær, en það á líka að ganga út frá því í byrjun að fólk vilji gefa. Það er mitt sjónarmið.