141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

ætlað samþykki við líffæragjafir.

28. mál
[17:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er reginmunur á þessu. Menn geta verið innilega á móti því að gefa líffæri en látið það hvergi uppi og þeir þekkja ekki allt lagasafnið. Þá geta verið tekin úr þeim líffæri að þeim forspurðum og í samræmi við þeirra trú lenda þeir kannski ekki í himnaríki eða eitthvað slíkt, ekki veit ég það.

Mér finnst miklu betra að menn gefi ákveðið svar um það hvort þeir vilji gefa líffæri. Mjög margir gefa til dæmis blóð, það er sambærilegt. Flestir mundu vilja gefa líffæri og þá merkja þeir bara á skattframtalið í reitinn „ég vil gefa líffæri“. Þá er það ákvörðun einstaklingsins. Hann skrifar undir og allt er slétt og fellt. Þá er ekki verið að gera ráð fyrir að menn vilji þetta eða hitt, að löggjafinn geri ráð fyrir því, það finnst mér bara vera inngrip í frelsi einstaklingsins.