141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

ætlað samþykki við líffæragjafir.

28. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sé ekki þennan reginmun á því ef þetta verður eins og við leggjum til og því sem gengur og gerist í dag. Mér finnst ekki vera reginmunur á. Í dag gæti einhver verið svakalega trúaður sem vill alls ekki gefa líffæri en hefur ekki sagt það við neinn eða gert ráðstafanir. Það gæti því gerst að aðstandendur, ef þeir vita ekki að hann sé svona mikið á móti þessu, mundu gefa leyfi sitt til líffæragjafar. Það gæti alveg gerst í dag. Það er sama inngrip í frelsi einstaklingsins og hitt, miðað við málflutning hv. þingmanns. Þannig að ég sé ekki þennan reginmun.

Munurinn felst aðallega í því, að mínu mati, að það að gera ráð fyrir ætluðu samþykki auðveldar aðstandendum að segja já. Ég ítreka það að við flutningsmenn tillögunnar leggjum ekki til að aðstandendur séu ekki spurðir. Ég sá að hv. þm. Pétur Blöndal var með þá hugmyndafræði í andsvari á síðasta þingi þegar málið var flutt í fyrsta skipti að vilja láta merkja við á skattframtalinu og eftir það hefðu aðstandendur ekkert með það að segja í framhaldinu. Ef viðkomandi merkti við að hann vildi gefa líffæri gætu aðstandendur ekki neitað því, þá er það endanleg ákvörðun. Þannig hafa Austurríkismenn og Belgar það. Ég tel að við eigum ekki að ganga svo langt.

Ég tel að ekki sé verið að traðka á frelsi einstaklingsins með því að lagaumhverfið sé þannig að gert sé ráð fyrir að allir vilji gefa. Viðkomandi getur látið skrá sig og sagt nei, ég vil ekki gefa, en þá þarf hann að gera það, hafa fyrir því og hann getur sagt líka við aðstandendur sína að hann vilji ekki gefa. Þá er það virt nema ef fjölskyldan gengur gegn vilja hins látna. Ég veit ekki um nein slík dæmi, ég held að mjög fá slík dæmi séu til.