141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

þýðing skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku.

123. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég flyt tillögu til þingsályktunar um þýðingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku. 1. flutningsmaður að þessu máli er hv. þm. Margrét Tryggvadóttir en hún er erlendis sem stendur. Meðflutningsmenn eru Birgitta Jónsdóttir, sá er hér stendur og Eygló Harðardóttir. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að láta þýða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku.

Í greinargerð með þessari tillögu, sem er stutt, segir:

Tillaga þessi var áður lögð fram á 139. og 140. löggjafarþingi en komst ekki til umræðu.

Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010. Í nefndinni áttu sæti Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Sigríður Benediktsdóttir, kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum.

Útgáfa skýrslunnar markaði tímamót í endurreisn Íslands og hún geymir vandaða og nákvæma frásögn af þeim atburðum sem leiddu til hruns bankakerfisins og góða greiningu á íslensku viðskiptalífi.

Skýrslan var gefin út í níu bindum og seldist afar vel. Hún er einnig aðgengileg á vef Alþingis án endurgjalds og þar er einnig ítarefni sem ekki fylgir prentuðu útgáfunni. Skýrslan hefur enn ekki verið þýdd í heild á önnur tungumál en á vef þingsins er þó að finna enska þýðingu á hluta hennar. Flutningsmenn tillögunnar telja afar brýnt að skýrslan verði þýdd í heild sinni á ensku enda varðar efni hennar ekki einvörðungu þá sem eru læsir á íslensku.

Frú forseti. Við flutningsmenn þessarar tillögu teljum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis mjög mikilvægt og merkilegt rit og sennilega eitthvert merkilegasta rit í lýðveldissögunni. Þessi skýrsla hefur vakið mikla athygli innan lands vegna þess að hún er gríðarlega umfangsmikil og ítarleg og vönduð en hún hefur einnig vakið mjög mikla athygli erlendis. Ég er oft í samskiptum við erlenda fréttamenn og blaðamenn og þeir lýsa yfirleitt undrun sinni á því að skýrslan í heild sinni skuli ekki vera aðgengileg á að minnsta kosti einu erlendu tungumáli. Þá liggur kannski beinast við að tala um ensku vegna þess að hún er ef til vill útbreiddust tungumála.

Þetta finnst mér sjálfum mikilvægt vegna þess að þessi skýrsla nýtist sem fræðirit og mundi sennilega rata inn í fjölmarga ef ekki flesta háskóla heimsins sem það rit sem hefur hvað ítarlegast verið skrifað og skráð um kerfishrun stjórnkerfis og viðskiptalífs. Sjálfur er ég hagfræðimenntaður og ég man aldrei eftir því að hafa nokkurn tíma rekist á rit af þessu tagi á háskólabókasöfnum eða í þeim heimildum sem ég hef leitað í námi mínu. Þessi skýrsla rannsóknarnefndarinnar er í rauninni alveg einstök.

Útgáfa skýrslunnar á ensku mundi auka hróður Íslands á alþjóðavettvangi vegna þess að hrunið og afleiðingar þess vöktu heimsathygli. Það hefur líka vakið mikla athygli hvernig Íslendingar hafa tekið á afleiðingum hrunsins og á hruninu og þó að margt hafi verið misskilið þá höfum við engu að síður störf rannsóknarnefndar Alþingis, skýrsluna sem hún skrifaði og þau atriði sem Alþingi hrinti í framkvæmd eða tók afstöðu til í kjölfar skýrslu þingmannanefndar Alþingis um þessa skýrslu. Það hefur líka vakið mikla athygli erlendis hvað Íslendingar hafa tekið af miklum skörungsskap á sumum þessara mála. Þýðing skýrslu rannsóknarnefndarinnar mundi einfaldlega lyfta enn frekar undir það að Íslendingar hefðu gengið fram af mikilli einurð og eindrægni í því að upplýsa hvað fór úrskeiðis.

Þýðing þessarar skýrslu mun örugglega kosta umtalsverða fjármuni. Það er að vísu búið að þýða einhvern hluta hennar. Það má ímynda sér að hægt væri að fara út í þá þýðingu með einhvers konar aðferðum sem eru ekki taldar hér upp í smáatriðum en ein hugmynd er að framselja einfaldlega eignarhaldið á skýrslunni til einhvers útgefanda með því skilyrði að hann sæi til þess að hún yrði þýdd á hans eigin kostnað og hann hefði svo eigendarétt að henni og gæti þá selt hana eins og honum sýndist. Það er hægt að fara ýmsar leiðir í því máli ef fólk hefur áhuga. Aðalatriðið er að þetta plagg, sem ég leyfi mér að kalla tímamótaplagg í Íslandssögunni, er til og að það verði aðgengilegt fyrir fleiri í heild sinni en Íslendinga eina. Það yrði til sóma fyrir Alþingi ef það yrði í heild þýtt á erlend tungumál.