141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Mér svíður óréttlætið í samfélaginu, óréttlætið sem birtist í endurkomu útrásarvíkinganna með fé úr skattaskjólum. Skattaskjólsvíkingar fá nú afslátt hjá Seðlabankanum til að gleypa fyrirtæki sem búið er að skuldahreinsa á kostnað skattgreiðenda. Óréttlætið birtist meðal annars í 400 milljarða eignatilfærslu frá verðtryggðum skuldum heimila til lífeyrissjóða sem töpuðu 479 milljörðum í loftbólufjárfestingum. Það birtist í skuldaúrræðum sem hafa fyrst og fremst gagnast tekjuháu fólki með miklar skuldir. Óréttlætið felst í fullri innstæðutryggingu sem fyrst og fremst hefur verið á kostnað skattgreiðenda og kostað þá 568 milljarða. Óréttlætið felst í því að þeir sem höfnuðu áhættu í fasteignakaupum sitja nú uppi með mestu skuldirnar og óréttlætið birtist í vaxandi launamun karla og kvenna.

Frú forseti. Bankahrunið bjó til væntingar um samfélag byggt á réttlæti og jöfnuði. Endurreisn óréttlætisins veldur því vonbrigðum. Við verðum að bregðast við óréttlætinu með sérstökum skatti á skattaskjólsundanskot, uppstokkun lífeyrissjóðakerfisins, almennri leiðréttingu verðtryggðra lána og birtingu launaupplýsinga á netinu. Skattaskjólsundanskot verður að skattleggja þannig að skattgreiðendur fái afslátt Seðlabankans til baka og skatt af fjármagni sem skotið var undan fyrir hrun.

Ríkisstjórnin dýpkaði kreppuna með of hröðum niðurskurði og nú ætlar hún, frú forseti, að lengja kreppuna með því að bregðast ekki við þeirri staðreynd að bankakreppan (Forseti hringir.) hefur breyst í skuldakreppu heimilanna.