141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kom fram í máli þingmannsins, hér er um langvarandi vanda að ræða og forstjóri Landspítalans hefur meðal annars minnt á það í ágætum pistlum sínum á heimasíðu spítalans að þetta vandamál sé ekki að dúkka upp í dag heldur sé þetta uppsafnaður vandi og í raun og veru gott dæmi um það hvernig hlutirnir geta farið þegar verkefnum eins og þessu er ekki sinnt. Er rétt að minna á að framlög á raunvirði til tækjakaupa á Landspítalanum drógust saman um 43% á árabilinu 2003–2008.

Það kemur að gjalddaga að lokum í þessum málum eins og öllum öðrum og ástand í tækjamálum, bæði á Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, er orðið alvarlegt. Það þarf að bregðast við. Við höfum ekki rætt það sem slíkt í fjárlaganefnd, þ.e. beinar tillögur um þetta, en við erum hins vegar mjög meðvituð um ástandið sem þarna er að skapast og hefur verið bæði í fréttum og umræðunni. Ég held að ég geti fullyrt það og sagt hér að það verður brugðist við þessum vanda. Það verða gerðar tillögur um breytingar á fjárlögum til útgjalda vegna tækjakaupa, bæði á Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þannig að úr verði bætt og að vel verði hægt að una við. Það verður þá væntanlega í fyrsta skipti frá 2003 sem tillögur til fjárútláta vegna tækjakaupa á sjúkrahúsum muni aukast í fjárlögum. Það hefur ekki gerst í áratug.

Það er annað sem ég vil minnast á að lokum, endurnýjun tækjabúnaðar á Landspítalanum hangir líka á húsakosti og aðbúnaði Landspítalans, þeirri framtíðarsýn sem við í þessum sal sjáum fyrir sjúkrahúsið og hvaða hlutverki það á að gegna. Ég vænti þess að menn taki þá það mál til umræðu sömuleiðis þegar að því kemur, hvort rétt sé að ráðast í byggingu nýs landspítala og þá í leiðinni að auka enn á þann (Forseti hringir.) tækjabúnað spítalans sem nauðsynlegt er að hafa. Það hangir saman með húsakosti og aðbúnaði, (Forseti hringir.) þ.e. hvernig þeim málum vindur fram.