141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en byrjað á því að taka undir þessa ágætu herhvöt hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og hvetja alla til að mæta og styðja við landslið okkar í knattspyrnu, kvennalandsliðið.

Það sem ég vildi nú gera að umtalsefni var þó sú umræða sem hér fór fram áðan um stöðu mála á Landspítalanum. Fyrst vildi ég segja að það er rétt að skoða það í reikningum spítalans og hjá ríkinu hvað annars vegar er um að ræða hjá Landspítalanum í kostnaði vegna kaupa á tækjum og hins vegar hvað færi síðan undir rekstrarleigu. Þetta er til að fá raunsanna mynd af þeim fjármunum sem hafa farið til tækjakaupa hjá Landspítalanum. Það er full ástæða til að skoða þetta þannig að við fáum raunsanna mynd af stöðunni.

En það er uppi mjög alvarleg staða á Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Það er nauðsynlegt að bregðast við en vandinn er auðvitað sá að fjármunirnir eru takmarkaðir. Því er það svo, virðulegi forseti, að þetta snýst um forgangsröðun, m.a. okkar þingmanna um hvernig við ráðstöfum takmörkuðum fjármunum þjóðarinnar. Ég verð að segja af þessu tilefni að þegar við tókum á síðasta þingi ákvörðun um að setja langleiðina upp í 10 milljarða í göng undir Vaðlaheiði, tókum við þá framkvæmd fram fyrir og út fyrir samgönguáætlun og það með tiltölulega lítilli umræðu, og því hlýt ég að spyrja mig að því — og þrátt fyrir að það sé ætlað að á mörgum árum og jafnvel áratugum komi þessir peningar til baka í ríkissjóðinn — hvort ekki hefði verið nær fyrir okkur að beina þeim miklu fjármunum að Landspítalanum og heilbrigðiskerfinu almennt, en sérstaklega Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, til að tryggja að það séu til öll þau tæki og tól sem þarf til að bjarga mannslífum.

Ég tel að við höfum gert mistök á síðasta þingi þegar við tókum ákvörðun um ráðstöfun þessara fjármuna, allt að 10 milljörðum þegar litlir peningar eru til og þá vantar svo sárlega í þessa starfsemi. (Forseti hringir.) Þetta er áminning um að við þurfum að forgangsraða þegar kemur að því að ráðstafa peningum skattborgaranna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)