141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Hann hefur oft rætt hugmyndir sínar um breytta umgjörð fjármögnunarfyrirtækja og ég hef mikla samúð með þeim sjónarmiðum. Við þráum auðvitað öll þann tíma þegar fyrirtæki byggðu afkomu sína á raunverulegri verðmætasköpun sem hagkerfið endurspeglaði síðan.

Þetta er alþjóðlegt vandamál eins og hv. þingmaður rakti og ekki sérstaklega hægt að benda á Evrópusambandið sem uppruna reglna að þessu leyti. Hér er um að ræða alþjóðlegar reikningsskilareglur og stærsti vandinn í þessum hringferlum peninga og stækkun efnahagsreikninga fyrirtækja með lofti er auðvitað í Bandaríkjunum þar sem þessi vandi þróaðist og þroskaðist á tíunda áratugnum og fyrsta áratug þessarar aldar.

Við þurfum síðan að horfa á það innan lands með hvaða hætti við getum reglað viðskiptalíf okkar til að styðja við verðmætaskapandi atvinnulíf í landinu. Það er verulegt vandamál hversu einangrað landið er og hve alvarlegt vandamál höftin eru í rekstri hagkerfisins. Ég líki nú orðið áætluninni um afnám hafta við það að menn virðast ætla sér að ausa lekt stórfley með fingurbjörg. Því miður bendir ýmislegt til þess að þær leiðir sem hafa verið útbúnar í áætlununum um afnám hafta til þess að vinda ofan af þessari stöðu virki ekki nægilega vel.

Það er sérstakt áhyggjuefni ef þær heimildir sem settar voru inn í þessa áætlun til erlendra aðila um að koma hingað inn með aflandskrónur og gjaldeyri nýtast fyrst og fremst íslenskum aðilum sem hafa geymt eitthvert fé utan hafta til þess að byggja upp stöðu í íslensku viðskiptalífi. Það er ekki þannig að raunverulega séu að verða til ný störf á grundvelli erlends fjármagns sem flæðir inn í landið. (Forseti hringir.) Þetta hlýtur að vekja með okkur verulegar efasemdir um efnahagslega stöðu okkar og um (Forseti hringir.) getu þeirra áætlana sem (Forseti hringir.) nú þegar eru fyrir hendi um afnám hafta til að vinda raunverulega ofan af þeirri stöðu.