141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem er jafnframt formaður Þingvallanefndar. Fréttir af Þingvallavatni hafa verið talsvert í fjölmiðlum undanfarið. Þingvallavatn og Mývatn eru í hópi merkilegustu vatna í öllum heiminum og sem Íslendingar berum við öll ábyrgð á því að lífríki þeirra og sérstaða varðveitist. Fréttir af málningarmengun vegna töku kvikmyndar í Þingvallavatni í landi þjóðgarðsins vekja upp spurningar og líka fréttir af miklum gróðurskemmdum við Silfru sem er heimsfrægur staður til köfunar. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er á ábyrgð Alþingis og okkur ber að sjálfsögðu að passa vel upp á þann einstaka stað. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort reglurnar sem í gildi eru um Þingvallavatn séu einfaldlega nógu góðar til þess að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Þarf ekki að taka alla umgengni og umferð í þjóðgarðinum til gagngerrar endurskoðunar og reglur þar að lútandi? Umferð þarna hefur stóraukist og það sér mikið á gróðri mjög víða.

Síðan hafa einnig borist fréttir um að tærleiki Þingvallavatns sem talinn er gefa því einna mesta sérstöðu fyrir utan lífríkið sé ekki sá sami og áður. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort Þingvallanefnd hafi einhverjar hugmyndir um hvað er að gerast þar eða hvort það sé fyrirhugað að það mál verði einnig skoðað nánar.