141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi svara því sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði áðan, það er ekki í verkahring Þingvallanefndar að framfylgja reglum um þungatakmarkanir og heldur ekki verkefni nefndarinnar að veita undanþágur þar frá. Það gerir Vegagerðin.

Ég kvaddi mér hljóðs til að taka þátt í umræðunni um tækjakost Landspítalans. Það var mjög alvarleg staða á spítalanum við hrun, eins og hér hefur verið rakið, þar sem dregist höfðu verulega saman fjárveitingar til tækjakaupa um langt árabil, allt frá árinu 2003. Í hruninu, þegar krónan féll um helming, tvöfaldaðist auðvitað verð á öllum tækjum á einni nóttu. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um mikilvægi þess að bæta í og styrkja tækjakost, ekki bara Landspítalans heldur einnig Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég tek líka undir það sem hér var sagt um að núverandi húsakostur Landspítalans hentar ekki alltaf undir ný og góð tæki og stendur þess vegna tækjakaupunum fyrir þrifum.

Árangur bráðaaðgerða og slysalækninga er mælikvarði á gæði hátæknilækninga. Nýlega kom út rannsókn sem sýnir að árangurinn hér á Íslandi er langtum betri í þeim efnum á Landspítalanum en annars staðar á Norðurlöndunum. Það kemur fram í rannsókn sem birtist í tímaritinu Injury fyrir skömmu að af níu sjúklingum og bráðaaðgerðum af því tagi lifðu fimm sjúklingar og lifa enn við góða heilsu í dag. Þetta hlutfall er 0–18% annars staðar á Norðurlöndunum. Það er unnið kraftaverk á hverjum degi á Landspítalanum þrátt fyrir slæman húsakost og gömul tæki. Í uppbyggingaráætlun fyrir nýjan landspítala er reiknað með 7 milljörðum kr. af byggingarkostnaðinum til tækjakaupa. Það besta sem við getum gert hér í þessu húsi er að tryggja framgang (Forseti hringir.) byggingar nýs landspítala, og það sem allra fyrst.