141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

154. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Stefnan verði tímasett samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk.“

Ljóst er að með einhverjum hætti þarf að móta stefnu til framtíðar fyrir afreksfólk okkar í íþróttum en það er ekki síður mikilvægt að við tryggjum að þeirri stefnumótun fylgi fjárhagslegur stuðningur. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum og síðast nú í síðustu viku að við eigum afburða íþróttamenn. Við eigum Evrópumeistara í fimleikum, bæði í unglingaflokki og í kvennaflokki. Við eigum landslið karla í handbolta sem stenst snúning bestu landsliðum heims. Við eigum frábæra íþróttamenn í hópi fatlaðra sem hafa unnið til verðlauna á undanförnum Ólympíuleikum fatlaðra. Við eigum líka ófatlaða frjálsíþróttamenn sem hafa staðið sig með afbrigðum vel á erlendri grund í stórmótum og á Ólympíuleikunum. Það gefur því augaleið, frú forseti, að það ber að styðja við þetta fólk.

Síðast en ekki síst vil ég nefna kvennalandslið Íslands í knattspyrnu sem er nú að komast í hóp þeirra bestu í Evrópu og í heiminum. Í öllum þessum íþróttagreinum eru fyrirmyndir barna og unglinga, fyrirmyndir sem vert er að horfa til og sem okkur ber að styðja við bakið á.

Ég tel að það sé ómetanlegt fyrir forvarnastarf og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsmála að við eigum slíkar fyrirmyndir og styðjum vel við bakið á þeim. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur mótað afreksstefnu sína þar sem settar hafa verið fram tímabundnar markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. En til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber, ásamt því að horfa á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Það er ljóst að mörg íþróttafélög hafa gert slíkt hið sama í samvinnu við sveitarfélögin.

Í þingsályktunartillögunni er því lagt til að ráðherra verði falið að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum. Mikilvægt er að mati flutningsmanna, þeirrar sem hér stendur og hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, að tryggt verði að sú stefna verði unnin í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin til að tryggja að sem flestir taki þátt í vinnunni. Þannig eru mestar líkur á að stefnan verði grundvöllur að öflugum stuðningi við afreksfólk okkar sem eykur líkur á því að sem mestur árangur náist. Það er nauðsynlegt að tímasetja slíka áætlun og síðast en ekki síst er skilyrði fyrir slíkri stefnu að fjárhagslegur stuðningur verði tryggður því að án fjárhagslegs stuðnings er stefnan lítið annað en orð á blaði.

Stefnan skal hins vegar vera endurskoðuð árlega að mati flutningsmanna og er eðlilegt að ráðherra haldi allsherjar- og menntamálanefnd þingsins upplýstri um framgang mála.

Stundum er sagt, og það hefur heyrst oftar en ekki í þessum sal, að menn eigi að forgangsraða fjármunum til verkefna þegar fjármunir eru af skornum skammti. Undir það tek ég heils hugar. Ég tel hins vegar að það séu forvarnir til framtíðar að styðja við bakið á öflugu íþróttafólki, að styðja við bakið á þeim fyrirmyndum sem yngra fólkið, strákar og stelpur, geta samsamað sig með, horft til og stefnt að því markmiði að ná jöfnum árangri. Það eru forvarnir til framtíðar og þeim fjármunum sem varið er í forvarnastarf og uppbyggingu til framtíðar er ætíð vel varið. Þarft er að forgangsraða með þessum hætti í þágu forvarnastarfs og uppbyggingar íþrótta- og æskulýðsmála.

Virðulegi forseti. Það er ósk mín og von að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki þingsályktunartillöguna til skoðunar, og ekki bara skoðunar heldur að hún kalli til þá aðila sem hér eru til nefndir. Ég vona að þingsályktunartillagan verði samþykkt á þessu þingi, að hún verði ekki bara pappír í nefndarstarfi og að við getum haldið áfram að byggja upp öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf og getum stutt við bakið á því frábæra afreksfólki sem við Íslendingar eigum í íþróttum og köllum stundum „strákana okkar“ eða „stelpurnar okkar“ þegar vel gengur. Það er von mín að við sýnum í verki að þeim orðum fylgir athöfn, að við ljúkum við mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum og sýnum með fjárhagslegum stuðningi við málið að okkur er alvara þegar við tölum um „strákana okkar“ og „stelpurnar okkar“.