141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[16:33]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum (úthlutun tollkvóta og fóðursjóður). Frumvarp þetta er á þskj. 305 og er 272. mál. Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu frekar en nokkur önnur mál. Það er nú lagt fram aftur mjög lítið breytt og nánast óbreytt að öðru leyti en því að bætt hefur verið við frumvarpið ákvæðum um niðurlagningu svonefnds fóðursjóðs.

Forsaga málsins er sú að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu frá 18. júlí 2011 að þær heimildir sem ráðherra eru veittar til álagningar tolla samkvæmt ákvörðun tollalaga og laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum væru ekki í samræmi við þær kröfur um skattlagningarheimildir sem leiðir af ákvörðun 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að sömu niðurstöðu nú í september.

Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samráði við fjármálaráðherra að fela starfshópi að fjalla um álitið og gera tillögur að breytingum á ákvæðum tollalaga og laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum að teknu tilliti til athugasemda umboðsmanns Alþingis og þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist. Í hópnum áttu sæti fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Þá vann ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara með starfshópnum en hún er skipuð fulltrúum frá þremur ráðuneytum. Frumvarp þetta er byggt á tillögum starfshópsins.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða að því að takmarka eins og kostur er þau matskenndu skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt við ákvörðun um úthlutun tollkvóta og kveða skýrt á um tollprósentu sem vörur sem fluttar eru inn á grundvelli tollkvóta skuli bera þannig að ákvæði laganna fái staðist fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár.

Í frumvarpi þessu er lagt til að miðað skuli við magntolla við úthlutun á tollkvótum samkvæmt viðaukum IIIA og IIIB við tollalög en ekki verðtolla. Í þessum viðaukum eru tilgreindir tollkvótar samkvæmt skuldbindingum Íslands í samningum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem skylt er að úthluta árlega. Af gildandi ákvæði verður ráðið að ráðherra hafi í ákveðnum tilvikum val um hvort lagður sé á magntollur eða verðtollur. Lagt er til að tollurinn verði magntollur en ekki verðtollur þar sem sá fyrrnefndi verndar betur innlenda framleiðslu þegar verð á heimsmarkaði er lágt og dregur úr verðsveiflum á innanlandsmarkaði.

Í frumvarpinu er lagt til að skilgreint verði nánar hvaða staða þurfi að vera uppi á innanlandsmarkaði til þess að tollkvótum sé úthlutað samkvæmt viðaukum IVA og IVB. Í gildandi ákvæði er kveðið á um heimild ráðherra til úthlutunar úr viðaukunum. Lagt er til að ráðherra verði skylt að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur þegar sýnt þykir að ekki sé nægjanlegt framboð af viðkomandi vöru á innanlandsmarkaði. Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara verður þá falið það hlutverk að safna upplýsingum um stöðu og horfur á markaði og gera tillögur til ráðherra um úthlutun tollkvóta.

Til að ráðherra sé skylt að úthluta tollkvótum þurfa ákveðin hlutlæg skilyrði að vera uppfyllt samkvæmt frumvarpinu. Sé vara ekki til stöðugrar dreifingar eða ætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% magni af eftirspurn að minnsta kosti tveggja leiðandi, ótengdra dreifingaraðila er lagt til að ráðherra skuli úthluta tollkvótum samkvæmt viðaukum IVA og IVB. Gert er ráð fyrir að ráðgjafarnefndin leiti upplýsinga frá að minnsta kosti tveimur leiðandi, ótengdum dreifingaraðilum um eftirspurn eftir tiltekinni vöru á innanlandsmarkaði. Þannig er stefnt að því að tryggja sem gleggsta mynd af markaðsaðstæðum hverju sinni og jafnframt komið í veg fyrir að tengdir aðilar geti samræmt aðgerðir til að knýja á um úthlutun tollkvóta. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að vara teljist ekki í boði á innanlandsmarkaði í nægjanlegu magni ef hún er eingöngu fáanleg frá einum innlendum framleiðanda. Þannig er stefnt að því að tryggja ákveðna verðsamkeppni á markaðnum.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að nánar verði skýrt hvernig tollur skuli ákveðinn við úthlutun tollkvóta og lögfest hlutlæg skilyrði fyrir þeirri ákvörðun.

Lagðar eru til breytingar sem fela í sér að ekki er lengur um að ræða framsal á valdi til ráðherra til að ákveða tolla á vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum heldur mun tollurinn ákvarðast á grundvelli hlutlægra viðmiða sem kveðið er á um í lögunum.

Hlutverk ráðgjafarnefndar sem starfar samkvæmt 87. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er skilgreint frekar í frumvarpi þessu og gert ráð fyrir að nefndin sinni talsverðri upplýsingaöflun um stöðu á markaði.

Í frumvarpinu eru því lagðar til breytingar á ákvæði um heimild til álagningar dagsekta á þá aðila sem skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Mikilvægt er að aðilar sem safna upplýsingum samkvæmt lögunum hafi úrræði til að bregðast við þegar aðilar sem skylda hvílir á um að veita upplýsingar tregðast við að láta þær í té. Gera má ráð fyrir því að ráðgjafarnefndin þurfi oft og tíðum að ráðast í viðamikla upplýsingasöfnun og er þá nauðsynlegt að hægt sé að knýja fram gögn með beitingu viðurlaga.

Frumvarp þetta viðheldur að mörgu leyti þeirri framkvæmd sem almennt hefur tíðkast um úthlutun tollkvóta en með því að lögfesta skýr og hlutlæg viðmið fyrir ákvörðun ráðherra er talið að komið sé til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis.

Skilyrðin sem sett eru í frumvarpinu miða að því að nægjanlegt magn af landbúnaðarvörum sé til staðar á innanlandsmarkaði á hverjum tíma þannig að þörfum neytenda sé fullnægt. Þá er stefnt að því að tryggja ákveðna verðsamkeppni á markaði með því að tryggja að varan sé ávallt fáanleg frá fleirum en einum framleiðanda, neytendum til hagsbóta. Þó er ekki hróflað við þeirri stefnu að innlend framleiðsla skuli njóta verndar gagnvart innflutningi og sé kleift að standast verðsamkeppni við vörur sem fluttar eru inn á grundvelli tollkvóta.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu og reyndar að hluta til þeirri framkvæmd sem þegar er komin á, samanber að horfið var frá verðtollum yfir í magntolla á þessu ári, er talið að komið sé að fullu til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis í áliti hans frá 18. júlí 2011 og sömuleiðis mætt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll nú á dögunum.

Með frumvarpi þessu er einnig lagt til að fóðursjóður verði lagður niður sem er algjörlega sjálfstætt mál í þessu frumvarpi. Sjóðurinn var stofnaður með lögum nr. 87/1995 um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Andvirði tolla af innfluttu fóðri og hráefnum rennur í sjóðinn sem er í vörslu ráðherra. Ráðherra er síðan heimilt að greiða innflytjendum eða kaupendum fóðurs fé úr fóðursjóði sem samsvarar tollum sem þeir hafa greitt við innflutning vörunnar eða fóðurkaup. Óverulegir fjármunir renna í sjóðinn í reynd því að álagðir tollar eru að stærstum hluta felldir niður jafnóðum gegn framvísun skuldaviðurkenninga af hálfu innflytjenda, með öðrum orðum er sjóðurinn óvirkur og í raun hreinn gegnumstreymis- eða pappírssjóður í þessum skilningi. Ekki verður séð að ástæða sé til að viðhalda þessu fyrirkomulagi enda felur það í sér óþarfa umsýslu fyrir ríkið og innflytjendur, auk þess sem það getur gefið villandi mynd af tekjuöflun ríkisins því að allar tekjur fóðursjóðs eru færðar á tekjuhlið og síðan endurgreiðslur eða niðurfellingar á gjaldahlið. Með þessum breytingum er stefnt að því að stuðla að þessu leyti að einfaldari og gagnsærri stjórnsýslu og færa hana samkvæmt lögum að þeim veruleika sem við búum í raun við í dag.

Frú forseti. Ég tel að með þessu hafi ég gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar sem eðli málsins samkvæmt hefur samráð við efnahags- og viðskiptanefnd eftir þörfum.