141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[16:47]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Varðandi það hver metur er það lögunum samkvæmt hlutverk ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Hún er skipuð fulltrúum frá að minnsta kosti þremur ráðuneytum en síðan fleiri aðilum. Nú verð ég að vísu að játa að ég verð að styðjast við minni mitt en ég hygg að í henni séu bæði fulltrúar framleiðenda og neytenda, gott ef stéttarfélög eiga ekki aðild að henni líka. Alla vega hefur, ef ég man þetta rétt, verið reynt að vinna það í allgóðu samstarfi við helstu hagsmunaaðila á þessu sviði. Þarna sitja fulltrúar ráðuneyta og fleiri aðila.

Með þessu frumvarpi eru lagðar auknar og skýrari lagaskyldur á ráðgjafarnefndina um gagnaöflun og upplýsingaöflun til þess að tryggja að mat manna á þessum markaðsaðstæðum sé alltaf eins gott og kostur er og koma í veg fyrir að það komi nokkurn tímann upp þær aðstæður, annaðhvort raunverulega eða að minnsta kosti í umræðunni, að upp spretti tal um mögulegan skort á tilteknum vörum eins og við þekkjum frá undanförnum missirum. Það hefur ekki endilega alltaf orðið niðurstaðan í reynd en jafnvel bara umræðan um það veldur truflun á markaði og getur leitt til þess að einhverjir fari að hamstra.

Sú viðmiðun er hér lögð til að á grundvelli upplýsinga tveggja óháðra dreifingaraðila skuli tryggja að minnsta kosti 90% af því magni sem þeir telja eftirspurn eftir.

Svarið við seinni spurningunni, hvort tollkvótum verði þá úthlutað, er: Já, það verður staðið við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands hvað varðar lágmarksmarkaðsaðganginn. Þar hef ég í fyrsta sinn til dæmis boðið út lágmarksaðgang fyrir kindakjöt sem enginn forvera minna gerði en niðurstaðan er sú að það (Forseti hringir.) er skylt að gera samkvæmt lögum og alþjóðasamningum og þá gerir maður það hvort sem manni er það ljúft eða leitt. Sömuleiðis verður auðvitað að opna fyrir almennari innflutning á grundvelli tollkvóta ef þess er talin þörf og byggt á þessum grunni sem hér er lýst og ég fór yfir í framsöguræðu minni og lýsti í frumvarpinu.