141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[16:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að taka það skref til baka sem ranglega var tekið af forvera hans í embætti, núverandi hv. þm. Jóni Bjarnasyni, um það að breyta úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á tilteknum landbúnaðarafurðum úr magntollum yfir í verðtolla. Það er verið að snúa þessu — (Gripið fram í.) Já, nákvæmlega. Hv. þm. Jón Bjarnason gerði það í sinni ráðherratíð, breytti yfir í verðtolla. Nú er verið að breyta til baka yfir í magntolla. Ég vil hrósa hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir það og um leið, eins og ég sagði áðan, fóðursjóðinn sem er eðlilega verið að leggja niður og er í samræmi við það sem til að mynda hv. fjárlaganefnd hefur lagt fram í vinnubrögðum, að þær álögur og þau gjöld sem eru sett á renni beint til ríkissjóðs en ekki í tiltekna sjóði o.s.frv. En það er önnur saga.

Ég ætla ekki að ræða um tilhögun fjárlaga nú en fara örstutt yfir þetta mál. Í stóra samhenginu hafa í gegnum árin verið skiptar skoðanir á því hversu frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum eigi að vera. Ég tel hann eigi að vera frjálsari í dag. Við eigum að vera með opnari markaði en í dag að teknu tilliti til fæðuöryggis, matvælaöryggis og alls þessa, en þá eigum við líka að fara í það að treysta almenningi betur, treysta því að íslenskar vörur standist erlenda samkeppni. Við eigum góð dæmi um það að íslenskar landbúnaðarafurðir, eins og til dæmis grænmetið, hafa svo fyllilega staðist erlenda samkeppni þannig að sómi er að. Eins og ég gat um áðan hefur hlutdeild íslenskra grænmetisbænda aukist á markaði eftir að samkeppnin jókst. Við styðjum sjálfsögðu okkar bændur. Ég tel að það kerfi sem er núna uppi varðandi tolla og vörugjöld sé barn síns tíma. Það er kominn tími til þess að það sé tekið tillit til alls samfélagsins í þessu máli, þar á meðal neytenda.

Við vitum að þetta frumvarp til laga á sér rætur í ákvörðun fyrrverandi landbúnaðarráðherra þegar hann ákvað með reglugerð árið 2009 að úthluta tollkvóta vegna innflutnings á tilteknum landbúnaðarafurðum og miða þessa tollkvóta við verð en ekki magn. Þetta fyrirkomulag var síðan endurtekið árið 2010 og 2011.

Ég spurði hæstv. ráðherra hér áðan, hann kannski svaraði ekki nákvæmlega þeirri spurningu minni, hvort hann ætlar að úthluta tollum sem ellegar hefði verið úthlutað árið 2011 og 2010. Hann hefur kannski misskilið mig áðan, en ég veit það og ég fagna því sérstaklega að hann ætlar að úthluta ákveðnu magni af tollkvótum. Ég tel það vera hárrétt skref sem hann er að taka en um leið fagna ég því að það er verið að stíga agnarsmá skref í ljósi alþjóðlegra samninga sem við höfum gert. Þeir sýna fram á að það er betra að vera í alþjóðasamskiptum en að loka landið algjörlega af.

Mér þætti forvitnilegt að vita hvort þeim tollum sem í rauninni var ekki úthlutað 2010 og 2011 vegna þessarar röngu ákvörðunar verði bætt við það magn sem nú er verið að úthluta fyrir árið 2012 í ljósi nýrra reglna.

Eins og við vitum breytti þáverandi hæstv. ráðherra, Jón Bjarnason, frá þeirri framkvæmd sem áður hafði tíðkast frá árinu 1995 til ársins 2008. Það var árið 1995 sem við, í krafti þess að við tókum þátt í samstarfi og samningi við Alþjóðaviðskiptastofnunina, vorum skylduð til þess að heimila ákveðið lágmark af innflutningi á landbúnaðarafurðum. Mig minnir að það hafi verið allt upp í 3%. Síðan hefur okkur fjölgað og fjölbreytnin orðið meiri en þessi tala hefur engu að síður staðið í stað.

Í kjölfar ákvörðunar ráðherra voru gerðar þær athugasemdir við breytinguna að hún hefði meðal annars leitt til gjörbreyttra markaðsforsendna og óþarfa tjóns fyrir neytendur og innflytjendur. Í júní 2010 beindu SVÞ, Samtök verslunar og þjónustu, kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar ráðherra um tollkvóta vegna innflutnings á nautgripa- svína- og alifuglakjöti. Niðurstaða umboðsmanns var alveg skýr og kemur meðal annars fram í greinargerðinni með frumvarpinu. Hún var sú að hann taldi að þær heimildir sem ráðherra voru veittar til ákvörðunar um álagningu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga og búvörulaga samræmdust ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar. Síðan fer fyrirtæki í mál við ráðherra og vinnur það. Samkvæmt dómi héraðsdóms var að öllu leyti fallist á kröfur Innnes í málinu. Ég er örlítið ósammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, þegar maður les dóminn byggir þetta ekki eingöngu á því að matið hafi verið óljóst. Það kemur skýrlega fram í dóminum að ákvörðun ráðherra um að breyta úr magntolli yfir í verðtoll hafi augljóslega gengið gegn ákvæðum 47. gr. stjórnarskrárinnar. Dómurinn beinlínis áréttar að mannréttindi eru sett til verndar einstaklingum og lögaðilum en ekki stjórnvöldum sjálfum eins og þau virðast stundum halda.

Út af öðru máli er einnig gaman að hugsa út í það hversu sterkur mannréttindakaflinn hefur verið, kaflinn sem allir flokkar náðu árið 1999 sátt um að setja í stjórnarskrána. Það varð gríðarleg breyting á stjórnarskránni og er dæmi um að henni hefur verið breytt í gegnum tíðina.

Í dómi í máli þessa innflutningsfyrirtækis gegn ráðherra er einnig ítrekað að við ákvörðun skatta skuli lagður til grundvallar sá kostur við skýringu sem minna er íþyngjandi fyrir þá sem ætlað er að njóta réttar hverju sinni. Þáverandi ráðherra fór sem sagt hina leiðina. Því hafnar dómurinn með öllu þeirri röksemd ráðherra að heimilt hafi verið að koma á umræddri breytingu á fyrirkomulagi skattamála á grundvelli markmiðsákvæða tiltekinna laga og ólögfestum reglum um stjórnvaldsathafnir. Því hafi ákvörðun ráðherra — þetta finnst mér nú býsna alvarlegt, enn einn dómurinn sem fellur á ráðherra í ríkisstjórninni — hvorki talist málefnaleg né í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þessi niðurstaða héraðsdóms er, eins og ég gat um áðan, í fullu samræmi við álit umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar Samtaka verslunar og þjónustu um þetta sama efni.

Ég ætla ekki að fara að ýta á ráðherra um það hver skoðun hans er á því að auka enn frekar heimildir til innflutnings á landbúnaðarafurðum og auka samkeppni hér með þær, til þess er tíminn of skammur og ég held einfaldlega að umræðan sé það mikilvæg og stór að fleiri þyrftu að taka þátt í henni.

Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að þótt mikilvæg skref hafi verið tekin, m.a. með þessu frumvarpi ráðherra, að hverfa frá þeirri röngu ákvörðun sem forveri hans tók, þá hefði ég gjarnan viljað sjá meiri metnað í þá veru að það væri ekki einungis komið til móts við álit umboðsmanns Alþingis og héraðsdóms innan þröngs ramma heldur hefðu menn hugsað aðeins stærra og reynt að ræða það, kannski þvert á flokka, hvernig hægt er að auka frelsi í innflutningi, auka samkeppni með landbúnaðarafurðir án þess að bæði matvælaöryggi, fæðuöryggi, og ekki síður vinnuumhverfi bænda verði raskað að einhverju leyti.

Að mínu mati er þessi umræða um breytingar á landbúnaðarumhverfinu ekki spurning um hvort heldur einfaldlega hvenær. Ég ætla ekki að leyna því að þegar maður lítur yfir umræðuna þvert á flokka eru skoðanir skiptar. Það er eins og gengur. Það eru augljóslega skiptar skoðanir innan Vinstri grænna fyrst þessi ákvörðun hefur verið dregin til baka af hálfu núverandi ráðherra. Fyrrverandi ráðherra er enn þá í Vinstri grænum, alla vega veit ég ekki til þess að hann sé hættur. Það sama gildir um minn flokk. Þar eru skiptar skoðanir um þessi mál, um frelsi og aðgang að mörkuðum. Hann hefur verið frekar íhaldssamur í því að opna markaðinn frekar en hann hefur þó tekið þau mikilvægu skref sem við höfum þurft að taka, eins og meðal annars að gangast undir samning við Alþjóðaviðskiptamálastofnunina sem hefur þó stuðlað að því að við höfum fengið aukna fjölbreytni og meiri samkeppni með landbúnaðarafurðir.

Ég vil sjá fleiri skref tekin og í þá veru að það sé í auknum mæli tekið tillit til neytenda og heimila landsins.

Það verður athyglisvert að fylgjast með örlítið breyttu hlutverki þessarar ráðgjafarnefndar um landbúnaðarmál og kvótana sem hæstv. ráðherra kom inn á. Það verður fróðlegt að sjá hvort hún er frjálslyndari í skoðunum en þær nefndir sem hafa starfað vegna innflutnings á landbúnaðarvörum í tengslum við tolla og vörugjöld. Ég vonast til þess að bæði ráðuneytin og aðrir aðilar, hvort sem það eru Bændasamtökin eða ekki síður fulltrúar neytenda, taki nú stærri skref í þá veru þannig að við sjáum aukinn innflutning, aukið frelsi á þessu sviði. Ég hef einfaldlega trú á því að frelsi á sem flestum sviðum sé frekar til hagsbóta fyrir neytendur og fjölskyldur í landinu heldur en hitt.