141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[17:05]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki mikið meira um þetta að segja í sjálfu sér. Megintilgangur frumvarpsins er að lagfæra þessa framkvæmd og koma henni óumdeilanlega í það horf að hún sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og sömuleiðis að skapa vonandi meiri frið og festu um það hvernig staðið er að því, með hlutlægum viðmiðunum, að meta aðstæður á markaði og tryggja gott jafnvægisástand þar.

Þetta er auðvitað tvískipt. Annars vegar er lágmarksmarkaðsaðgangurinn sem við sömdum um á sínum tíma, við erum skuldbundin til að leyfa ákveðinn innflutning á lágum tollkvótum. Hann var tiltekinn í upphafi, var síðan hækkaður upp úr 2000 og við það er staðið.

Hins vegar er greitt fyrir frekari innflutningi með útboði tollkvóta þegar líkur eru á því að innlend framleiðsla anni ekki eftirspurn fyrir þær tilteknu vörur. Síðan er tiltekinn innflutningur alltaf mögulegur á fullum tollum eða hvað það nú er.

Við erum sömuleiðis ekki sjálfum okkur næg um mjög margar tegundir vara sem hér falla undir og þær eru fluttar inn í landið. En í gegnum þetta fyrirkomulag veitum við tiltekinn stuðning og vernd við innlendar framleiðslugreinar. Við gengum frá því að þannig yrði það á sínum tíma þegar innflutningsbönn hurfu en í staðinn kom tollvernd. Á því byggðu niðurstöðurnar í samningum við Alþjóðaviðskiptastofnunina, GATT, á sínum tíma. Hér er verið að laga framkvæmdina og reyna um leið að taka ríkt tillit til sjónarmiða neytanda á tvennan hátt; að það sé alltaf nægjanlegt framboð af þessum vörum á markaði og samkeppni sé tryggð. Að því leyti er tvímælalaus stefnubreyting í frumvarpinu sem ég vona að gangi í þá átt sem hv. þingmaður er sátt við.

Varðandi stuðninginn við innlendu framleiðsluna, og það var það sem ég var að segja, í frumvarpinu eru ekki fólgin nein (Forseti hringir.) tímamót eða breyting.