141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[17:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð enn að segja að mér finnst eitthvað galið við það að enn skuli vera einhver nefnd á árinu 2012 — með fullri virðingu fyrir þeim sem sitja í nefndinni, ég vona að þeir gæti hagsmuna neytenda betur en þeir hafa gert áður — sem segir okkur neytendum hvenær þörfum okkar er fullnægt og hvenær ekki. Mér finnst skrýtið að við skulum enn vera á því stigi. En ég skal reyna að sýna þessu skilning svo lengi sem menn vinna frekar í átt að auknu frelsi á þessum markaði.

Ég mun tala áfram fyrir því að breyta tollalöggjöf, m.a. vegna þessa máls. Ég mun tala áfram fyrir því að breyta mjög skringilegum vörugjöldum. Ég er ekki að ásaka aðeins þessa ríkisstjórn fyrir þetta, ég er að tala um þessa stefnu í samhengi hlutanna á síðustu árum og áratugum. Við þurfum að gjörbreyta þessu kerfi með tilliti til þarfa landsmanna í dag en ekki með tilliti til þess að vernda eina stétt umfram aðra og hanga í fyrirkomulagi sem var mótað fyrir samfélag sem var byggt upp á 6., 7. og 8. áratugnum. Ég held að það sé ekki til farsældar.

Um leið segi ég að ég fagna þessu skrefi. Rétt skal vera rétt. Ég tel þetta þó vera breytingu í þá átt að fá örlítið meiri samkeppni á markaði. En það er bara komið til móts við lágmarksþarfirnar. Það er miðað við lægsta samnefnarann eins og ég gat um áðan og ekkert umfram það.

Þetta mál snertir ekki heldur heildstæðan stuðning við landbúnaðinn og þess vegna tel ég að það sé kominn tími til að ræða enn frekar hvernig við styðjum við landbúnað okkar. Við viljum hafa öflugan landbúnað. Við erum með bestu mjólkurafurðir í heimi. Þess vegna treysti ég því að mjólkurbændur okkar standist samkeppni við erlendar þjóðir. Nefna mætti margar aðrar greinar landbúnaðarins. (Forseti hringir.) Ég ítreka meðal annars góða sögu samkeppni grænmetisbænda á íslenskum markaði þar sem við neytendur tökum íslenskum vörum fagnandi.