141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef lagt fram á Alþingi fjöldann allan af málum. Stundum er ég einn með þau og stundum með öðrum þingmönnum og ég er ekkert að telja það upp þó að hv. þingmaður eða hennar flokkur hafi ekki verið meðflutningsmenn. Að mínu mati er þar í sumum tilfellum um ágætismál að ræða, en kannski ekki að mati hv. þingmanns.

Varðandi það að hér hafi verið eitruð blanda af pólitík og atvinnulífi þá mótmæli ég því. Það var meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð fyrir því að selja ríkisbankana sem var virkilega eitruð blanda af atvinnulífi og stjórnmálum þar sem Alþingi kaus bankaráðsmenn. Alþingi kaus bankaráðsmenn þegar ég kom inn á þing 1995 og það kalla ég eitraða blöndu. En Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir því að selja ríkisbankana og minnka áhrif Alþingis á fjármálamarkaði.

Ég ætla svo ekkert að tala um þá blöndu sem nú er í gangi, hvort hún er eitruð eða sæt. Ég ætla ekkert að fara að egna til óvinafagnaðar með það.